Sjálfstæðisflokkurinn breytir um kúrs

Gömlu ritstjórnarbrýnin og ráðherrarnir Jón Baldvin Hannibalsson og Þorsteinn Pálsson setjast hjá Sigmundi Erni í Ritstjórunum þessa vikuna og greina samtímasögu stjórnmálanna heima og erlendis.

Þorsteinn rýnir í gamla flokkinn sinn, Sjálfstæðisflokkinn í byrjun þáttar og vekur athygli á því að hann hafi algerlega breytt um kúrs á landsfundinum um helgina hvað velferðarkerfið varði, en flokkurinn vilji nú skera það niður við trog svo tugum milljarða skipti - og greinilega sé af þessari hörðu afstöðu hans í málaflokknum, sem marki tímamót í sögu flokksins, að hann ætli sér ekki langa stjórnarsetu með Vinstri grænum en sé fremur að hugsa um samstarf með Miðflokknum í framtíðinni, en vel að merkja, þessi nýi kúrs Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum ofbjóði hugsanlega Miðflokknum líka. Og þetta upplegg hans um nýliðna helgi sé greinilega takturinn sem verði sleginn í borgarslagnum; þar muni takast á krafan um minna velferðarkerfi eða meira.

Jón Baldvin er nýkominn frá Litháen þangað sem honum var boðið vegna sjálfstæðisafmælis þessa gamla hjáríkis Sovétveldsins, nokkuð sem heimamenn þakka honum fyrir að góðum hluta, en umræðuefni kvöldsins er meðal annars risinn þar í austri sem fer að toppa karlinn Stalín sjálfan í valdatíma.

Tímamótin í Brexit-samningum Breta og Evrópusambandsins í vikunni eru líka til tals, en meginspurningin er þessi í norðurhöfum; hvaða áhrif hefur útganga Breta úr ESB á hagsmuni Íslands í viðskiptum, þjónustu og pólitík.

En þátturinn hefst á heilsugreiningu íslenska flokkakerfisins, en hver flokkurinn af öðrum kemur nú af landsfundi sínum með pólitík sína á hreinu, eða er það svo? Og hvaða einkunn fær ríkjandi ríkisstjórn? Er hún komin til að halda bara í horfinu? Og er seta hennar ef til vill til marks um það að meirihluti þjóðarinnar vill litlar sem engar breytingar á þjóðfélagskerfinu á Íslandi? Þeir Jón Baldvin og Þorsteinn eru ekki frá því nú ríki samstaða um að gera sem minnst.

Það er stórt spurt í Ritstjórunum að þessu sinni, en þátturinn er endursýndur í dag og einnig sjáanlegur á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.