Samherji sakaður um að greiða stjórnmálamönnum í namibíu yfir 2 milljarða króna: „þetta lítur út eins og mútur“

„Útgerðarfélagið Samherji stundar stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmála- og embættismanna í Afríkuríkinu Namibíu til þess að ná undir sig fiskveiðikvóta. Samherji, sem er umsvifamesta útgerðarfélag Íslands með um 111 milljarða króna eigið fé, hefur greitt á annan milljarð króna í mútur á síðustu árum.“

Frá þessu var greint í kvöldfréttum á RÚV en nánar verður fjallað um málið í Kveik í kvöld. Í fréttum RÚV er Samherji sakaður um að hafa greitt namibískum stjórnmálamönnum og venslafólki þeirra á annan milljarð króna, samhliða óvenju hagstæðum kvótaviðskiptum sínum við namibíska ríkið. Samherji sendi frá sér fréttatilkynningu í gær og samkvæmt henni mátti álykta að fyrirtækið hefði ekkert að fela.

Þá segir einnig orðrétt í kvöldfréttum:

„Viðskiptahættir Samherja eru sagðir skólabókardæmi um spillingu og mútur og er til rannsóknar hjá yfirvöldum í Namibíu.

Á sama tíma hefur fyrirtækið komist í miklar álnir í Suðvestur-Afríku. Að stórum hluta vegna óvenju hagstæðra kvótaviðskipta við namibíska ríkið. Samhliða þessum kvótaviðskiptum hefur Samherji greitt á greitt á annan milljarð króna til skúffu og aflandsfélaga sem skráð eru í eigu háttsettra ráðamanna og ættingja þeirra.

Yfirvöld í Namibíu rannsaka nú þessar greiðslur sem að mati sérfræðinga eru skólabókardæmi um spillingu og mútur. Daniel Baliant-Kurti yfirrannsakandi hjá samtökunum Global Witness segir í Kveik:

„Þetta lítur út eins og mútur. Ég held að Samherji þurfi að svara erfiðum spurningum til að afsanna það.“