Sameinuðu þjóðirnar birta landsrýniskýrslu íslands um heimsmarkmiðin

Sameinuðu þjóðirnar hafa birt á vef sínum skýrslu íslenskra stjórnvalda um innleiðingu heimsmarkmiðanna. Skýrslan er hluti af landsrýni Íslands á stöðu innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Skýrslan verður liður í kynningu forsætisráðherra á ráðherrafundi um heimsmarkmiðin hjá Sameinuðu þjóðunum í júlí næstkomandi.

Skýrslan fór fyrir ríkisstjórn í síðustu viku og var í kjölfarið send til Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan hafði áður farið í samráðsgátt stjórnvalda og alls bárust níu umsagnir sem tekið var mið af í lokaútgáfu skýrslunnar. Í skýrslunni má sjá að ýmsar áskoranir eru til staðar sem kalla á skipulagða og samhæfða vinnu innanlands og alþjóðlega.

Skýrslan byggir á grunni stöðuskýrslu sem verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmiðin ritaði og kom út í júní á síðasta ári. Í skýrslunni er fjallað um innleiðingu íslenskra stjórnvalda á heimsmarkmiðunum á innlendum og erlendum vettvangi. Einn kafli er um hvert heimsmarkmið og dæmi um innleiðingu markmiða. Í lokin er fjallað um næstu skref í innleiðingunni. Skýrslunni fylgir tölfræðiviðauki með mælingum sem tekinn hefur verið saman af fulltrúum Hagstofu Íslands. Í skýrslunni er sérstök áhersla lögð á kynslóðina sem mun taka við eftir að gildistími heimsmarkmiðanna hefur runnið sitt skeið. 

Skýrslan er liður í fyrstu landsrýni Íslands á heimsmarkmiðunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru hvött til þess að kynna landsrýni að minnsta kosti. þrisvar á gildistíma heimsmarkmiðanna til ársins 2030. Forsætisráðherra mun leiða kynningu Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum þann 16. júlí næstkomandi. þar sem auk ráðherra munu flytja ávörp fulltrúi Carbfix, Edda Sif Pind Aradóttir, og fulltrúar ungmennaráðs heimsmarkmiðanna, Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Sigurður Einarsson Mäntylä.