Sambandslögin frá 1918 og nútíminn

Símskeyti heyra nú sögunni til. Og barnabörnin mín þekkja ekki einu sinni orðið.

En svo vill til að einmitt þennan dag fyrir hundrað árum, 14. maí 1918,  barst Jóni Magnússyni forsætisráðherra merkilegt símskeyti. Það var frá Zahle forsætisráðherra Dana.

Skeytið hafði að geyma skýrslu hans til leiðtoga í dönskum stjórnmálum um stöðu samtala og viðræðna um samband landanna. Í skýrslunni var líka greint frá þeirri ákvörðun hans  sem kom hlutunum loks á skrið.  Um það sagði danski forsætisráðherrann:

„Í þessu sambandi hef ég beðið foringja allra stjórnmálaflokkanna að kveðja saman flokkana og leggja fyrir þá þá spurningu, hvort þeir telji það viðeigandi, sem stungið var upp á í ríkisráði 22. nóvember, sem uppástungu til Íslendinga, að hefja nú samningaumleitanir um alt samband Íslands og Danmerkur.“

Þetta var spurning sem danska þjóðþingið féllst á að væri viðeigandi og tilboð sem Alþingi Íslendinga gat ekki hafnað. Við þekkjum málalyktir og minnumst fullveldisins, þessa stærsta áfangi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, með sómasamlegum hætti á þessu ári.

En hvað felst í því að ein þjóð telst vera fullvalda ríki að eigin áliti og að mati annarra þjóða? Þjóðarétturinn geymir ýmis þau skilyrði sem uppfylla þarf. En lögin segja ekki alla söguna.  Einstaklingar hafa skiptar skoðanir um það efni og þjóðir setja sér mishá markmið. Og viðmiðin geta breyst í tímans rás.

Getum við til að mynda verið viss um málalyktir á Alþingi og í þjóðaratkvæði ef við ættum nú að taka afstöðu til sambandslaganna í öllum greinum?

Yfirlýsingin um ævarandi hlutleysi var eitt af grundvallaratriðum sambandslaganna. Það var óumdeilt á þeirri tíð en stóð skammt. Í dag er það hvorki á dagskrá ríkisstjórnar né stjórnarandstöðuflokka á Alþingi að hverfa á ný til hlutleysis.

Í sambandslögunum tryggðu Íslendingar sér rétt til áframhaldandi aðildar að Norræna myntbandalaginu svo lengi sem það stæði. Um það var algjör einhugur.

Þá litu menn á peninga sem mælieiningu sem gat verið alþjóðleg eins og tommustokkur, en töldu fjárhagslegan stöðugleika fremur vera tákn um fullveldi. Tilfinning mín er sú að þeir séu nú í minnihluta sem telja að slík hugsun eigi heima í innihaldslýsingu fullveldis.

Ákvæði sambandslaganna um gagnkvæman ríkisborgararétt og gagnkvæman rétt til fiskveiða í íslenskri og danskri lögsögu voru ekki með öllu ágreiningslaus. Tveir þingskörungar, Benedikt Sveinsson og Magnús Torfason, greiddu atkvæði gegn sambandslögunum af þessum sökum.

Þeir töldu að Danir myndu í krafti þessara ákvæða sölsa undir sig fiskimiði Íslendinga, eignast fallegustu og gjöfulustu bújarðirnar, aflmestu fossana og jafnvel ná meirihluti á Alþingi.

Lögformlega höfðu þeir mikið til síns máls. Þetta var allt fræðilega mögulegt. Meirihlutinn taldi á hinn bóginn með afar gildum rökum að fráleitt væri að svo myndi fara og taka yrði meiri hagsmuni fram fyrir minni.

En viðhorf manna um löghyggju og  hagsmunamat af þessu tagi hefur um margt breyst. Því má spyrja: Er ekki vel hugsanlegt að Benedikt Sveinsson og Magnús Torfason væru meirihlutaleiðtogar ef þeir væru nútímastjórnmálamenn?

En um eitt efni hygg ég að skoðanir manna standi óhaggaðar. Það snýst um hlutverk íslenskrar tungu í hugtakinu fullveldi.

Við reistum kröfuna um sjálfstæði þjóðarinnar með skírskotun til menningarfjársjóðs sem ritaður var á íslenska tungu. Og við gerðum það með því að lýsa þeim metnaði að áform okkar stæðu til þess að halda áfram að skapa íslenska menningu á okkar eigin sérstaka móðurmáli.

Þetta hvorki kom þá né kemur nú þjóðréttarlegum kröfum beint  við. Margar þjóðir eru fullvalda í þeim skilningi án þess að tala eða skrifa á eigin tungu. Hér ræðir bara um metnað þjóðarinnar; þær kröfur sem við setjum okkur sjálf. Sumir hafa mætur á Íslendingum fyrir þær sakir en fáir gera í raun og veru  þær kröfur til okkar.

Í þessu samhengi er gagnlegt að leiða hugann að  skrifum Kristilegs Dagblaðs í Kaupmannahöfn, sem birtust daginn eftir að danski forsætisráðherrann sendi skeyti sitt út hingað fyrir hundrað árum:

Þar stendur svart á hvítu að íslenska þjóðin tali tungumál sem engin önnur þjóð skilji, og í Kaupmannahöfn sé miðstöð menningar Íslendinga. Til þess að fá lesendur að bókum sínum og áhorfendur að leikritum sínum verði íslenskir rithöfundar að skrifa á dönsku. Að minnsta kosti geti íslenskur skáldskapur ekki þrifist á Íslandi.

Ég trúi að ýmsum hafi sviðið undan þessari hnútusendingu á sínum tíma. Í dag brosum við út í annað. En að því leyti sem í hnútunni fólst nokkur sannleikur höfum við rækilega rekið af okkur slyðruorðið. Tal okkar um fullveldi og íslenska tungu hefur verið full alvara í hundrað ár. Ekki tóm eða merkingarsnauð orð.

Til marks um það er, að enginn erlendur fjölmiðill myndi skrifa þannig um íslenska menningu og íslenskan skáldskap nú heilli öld síðar. Og ég efast jafnvel um að slík ummæli sjáist á þeim samfélagsmiðlum þar sem  ýmsir skeyta lítt um staðreyndir.

Það er frekar að tæknin skjóti okkur skelk í bringu. Við óttumst að börnin okkar hætti að tala íslensku sín á milli ef þau geta ekki gefið snjalltækjunum fyrirmæli á móðurmálinu.

En tæknin var líka ógnun fyrir hundrað árum. 

Á úthallandi vetri 1918 minnti ritstjóri Eimreiðarinnar á þá staðreynd að íslenskan hefði varðveist fyrst og fremst fyrir sakir einangrunar.  Mesta hættan sem henni væri búin stafaði af þeirri miklu tæknibyltingu sem flugið væri.

Flugið myndi að stríði loknu rjúfa einangrunina. Í framtíðinni mætti bregða sér til Englands á svipuðum tíma og það tæki að ríða til Þingvalla eða austur að Ölvesárbrú. Engin tunga smáþjóðar hefði staðið af sér slíkt nábýli við stærri þjóðtungur.

Síðan sagði ritstjórinn þetta:

 „ Rás tímans verður ekki stöðvuð héðan af. Vér höfum í eitt skifti fyrir öll vikið út af þeirri stefnu að vernda þjóð vora sem eilífan forngrip, að skýla oss  bak við kínverskan múr. Vér komumst í nábýlið innan skamms. Það er gott og sjálfsagt úr því sem komið er. Það er einn liður „framfaranna.““ 

Svo spyr hann að lokum:  „En tekst okkur að vernda þjóðernið og íslensku tunguna?“

Sjálfsagt finnst okkur flestum sá ótti sem fylgdi þessari glöggu framtíðarsýn fremur bernskur nú. Alltént fór ekki svo sem ritstjórinn var uggandi um. En sennilega er það fremur fyrir árvekni og sterka meðvitund í heila öld um mikilvægi tungumálsins fyrir fullvalda þjóð en að beygurinn um áhrif flugsins hafi verið tilhæfulaus með öllu.

Fyrir nokkrum árum kynnti þáverandi ríkisstjórn hugmynd um að breyta skopsögunni um holu íslenskra fræða í lifandi Hús íslenskunnar sem opna mætti í tilefni af aldarafmæli fullveldisins. En stjórnmálin reyndust umhleypingasöm sem fyrr. Sú góða hugmynd fauk út í hafsauga rétt eins og moldin af Haukadalsheiðinni gerir stundum í stífri norðanátt.

Þrátt fyrir þau vonbrigði getum við ekki kvartað á þessu minningaári fullveldisins um skilningsleysi þeirra sem haft hafa forystu fyrir málefnum þjóðarinnar.

Væntanlega verða framkvæmdir við Hús íslenskunnar boðnar út á þessu ári. Það á ekki að verða múr til minningar um liðinn tíma heldur lifandi vettvangur fyrir framtíðina.

Sómasamlegar fjárhæðir eru einnig ætlaðar á næstu árum til máltækniverkefnisins.

Segja má að máltækniverkefnið sé næsti risa prófsteinninn á vilja okkar og getu til þess að standa vörð um þjóðtunguna; það inntak fullveldisins sem flestir eru á einu máli um að ekki megi breytast þótt við sjáum margt annað í þeim efnum  í öðru ljósi en áður var.

Margir stjórnmálamenn hafa lagt hafa lóð á þessa vogarskál. Ég ætla ekki að nefna nöfn, utan nafn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hún vék úr stjórn stofnunarinnar í byrjun þessa árs eftir að hún tók við nýju embætti. Í stjórninni var hún öðrum ráðabetri. Og á Alþingi hefur hún gengið feti framar en flestir til þess að sjá svo um að við hefðum ekki tilefni til að kveina hástöfum hér í dag vegna skilningsskorts fjárveitingavaldsins.

Þegar öllu er á botninn hvolft hygg ég að við blasi gróandi á akri íslenskra fræða.

Sagt er að norræn tunga og ensk hafi verið svo líkar á sinni tíð að ekki hafi þurft að þýða skáldskap Egils á Englandi. Við vísum gjarnan til þess tíma sem gullaldar íslenskrar menningar.

En samt  viljum við ekki sjá fyrir okkur að sporgöngufólk fremstu rithöfunda okkar nú um stundir skrifi svo enskuskotna íslensku að verk þess þurfi ekki að þýða fyrir Englendinga þegar þar að kemur.

Að sönnu hefði þá ekki annað gerst en við hefðum farið með tungumálið í heilan hring á nokkrum öldum. Og ég ætla ekki að halda því fram að það myndi fara með fullveldið til þess fjanda sem við nefnum ekki hér. En það yrði rislægra á eftir og ekki í samræmi við þann metnað sem í brjóstum okkar býr.

Er ekki ágæt heitstrenging á aldarafmæli fullveldisins að við færumst að minnsta kosti  ekki langt í þá átt á okkar vakt?

Og þegar spurt er um útlitið getum við sagt: Það er enn veður til að skapa á íslensku.