Rýma þurfti gjörgæslu vegna rútuslyssins - Þrír enn á gjörgæslu og einn á bráðalegudeild

Rýma þurfti gjörgæslu vegna rútuslyssins - Þrír enn á gjörgæslu og einn á bráðalegudeild

Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi voru fjórir einstaklingar fluttir alvarlega slasaðir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á gjörgæslu Landspítalans í Fossvogi vegna rútuslyss á Suðurlandsvegi. Þrír eru ennþá á gjörgæslu og sá fjórði er nú á bráðalegudeild. Rýma þurfti til á gjörgæslunni vegna slyssins, en alls slösuðust 33.

Landspítali var settur á gult viðbúnaðarstig vegna slyssins og upphaflega var talið að fleiri væru alvarlega slasaðir en raunin varð. Þegar Landspítali var settur á gult viðbúnaðarstig var leitað aðstoðar hjá sjúkrahúsum í Reykjanesbæ og á Akranesi og sjúklingar fluttir þaðan frá Landspítala til að skapa rýmd í borginni.

„Þegar svona gerist þá sést að þarna eru yfir þrjátíu manns, og við höfum nú reynslu af mjög alvarlegum rútuslysum áður, og þá þurfum við að rýma á Landspítalanum. Það er sérstök áskorun vegna þess hversu fullur spítalinn er. Það er búið að vera mjög mikið álag undanfarna daga og vikur reyndar en það gekk mjög vel. Það er bara gengið í það mál og nágrannasjúkrahúsin unnu mjög vel með okkur og auðvitað sjúklingar og aðstandendur sem þurftu að bregðast skjótt við og vera tilbúnir og sveigjanlegir að þola flutninga,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Í tilkynningu frá Landspítala kemur fram að sjúkrahús á Selfossi og Akureyri hafi sinnt þeim sem slösuðust ekki alvarlega, fyrir utan þrjá einstaklinga sem leituðu aðhlynningar á Landspítala í gærkvöldi. Þeir þrír voru allir útskrifaðir samdægurs.

Nýjast