Rúv þurrkaði upp markaðinn fyrir hm

Samkeppni á auglýsingamarkaði í kringum Heimsmeistaramótið í knattspyrnu er gífurlega ójöfn, segja forsvarsmenn sjónvarpsstöðvanna Hringbrautar og N4 í Morgunblaðinu í morgun.

Morgunblaðið hefur eftir Sigmundi Erni Rúnarssyni, dagskrárstjóri á vef- og sjónvarpsmiðlinum Hringbraut, að minni fjölmiðlar á borð við Hringbraut hafi ekki átt möguleika gagnvart RÚV þegar um sölu auglýsinga fyrir Heimsmeistaramótið hafi verið að ræða. „Við áttum ekki séns gegn þeim tilboðum sem RÚV lét rigna yfir markaðinn. Auglýsingadeild sjónvarpsins fer fram af miklu offorsi, með þeim afleiðingum að litlar sjónvarpsstöðvar sem hafa minna áhorf eiga litla sem enga möguleika á að komast að.“

María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4 á Akureyri, tekur í sama streng við blaðamann Morgunblaðsins og segir að RÚV hafi verið eitt um hituna: „Það er bara þurrð á þessum markaði, þeir ryksuguðu þetta upp og voru klókir. Þetta er ofsalega ójöfn samkeppni.“

María Björk segir það hafa verið ljóst snemma að RÚV fengi forskotið: „Maskínan fór í gang um leið og ljóst væri að við færum á HM. Þetta er náttúrulega svakalegt forskot sem þeir hafa, og 20 manna teymi sem stendur að baki auglýsingunum“. María segir jafnframt að þeim hafi reynst erfitt að ná í auglýsingar frá fyrirtækjum af höfuðborgarsvæðinu: „Við erum kannski ekki að keppa á sama markaði líkt og aðrir fjölmiðlar í Reykjavík, en það var ekki um auðugan garð að gresja fyrir okkur að fá auglýsingar hjá þeim fyrirtækjum sem hafa höfuðstöðvar í Reykjavík, með útibú úti á landi. Okkar sérstaða liggur kannski í því að eiga bakland á landsbyggðinni, við þurftum að reiða okkur á norðlensk fyrirtæki og önnur utan af landi. En við sáum að það þýðir ekki að reyna við þessi stærri fyrirtæki. Ég hef fengið svör frá fyrirtækjum sem svara okkur hreint út að þeir hafi farið með allt sitt fé í HM á RÚV.“

Sigmundur Ernir segir út í hött að engar hömlur séu á auglýsingasölu RÚV. „Þeir geta skákað í skjóli slíks ofureflis að ef þetta viðgengist í öðrum atvinnugreinum þá væri strax búið að grípa inn í af hálfu samkeppnisyfirvalda, og annarra eftirlitsstofnana.“ Hann telur stjórnvöld í ofanálag hygla RÚV umfram aðra: „Stjórnvöld hlusta ekki, sjá ekki og hafa enga tilfinningu fyrir markaðnum. Það gildir einu hvar stjórnmálamennirnir eru á pólitískum meiði, það gerist ekkert í þessum málaflokki áratugum saman. Það er svo skakkt gefið að það er ríkinu til skammar“. Sigmundur Ernir segist vona að einkareknir fjölmiðlar standi saman þegar svona ber undir. „Það er óskandi að samtakamáttur annarra fjölmiðla eflist gegn ríkisvaldinu, og ég á von á því að góðir hlutir geti gerst þar.“