Rúmur hálfur milljarður gæti tapast í ferðaþjónustu á norðurlandi

Vegna gjaldþrots bresku ferðaskrifstofunnar Super Break gæti rúmur hálfur milljarður tapast í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ferðaskrifstofan stóð fyrir beinu flugi frá Bretlandi til Akureyrar og nú er unnið að því að fá nýja aðila frá meginlandi Evrópu og/eða Bretlandi til að fljúga beint til Akureyrar, enda nú þegar búið að selja um helming þeirra flugsæta sem voru í boði hjá Super Break. Fréttablaðið greinir frá.

Arnheiður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir í samtali við Fréttablaðið að um mikla blóðtöku sé að ræða. „Þetta verður högg fyrir fyrirtæki á svæðinu. Við reiknum með að þetta verði um 9.000 gistinætur sem gætu tapast í febrúar og mars og vegna árstíðasveiflna í ferðaþjónustu á Norðurlandi er um mikla veltu að ræða á þessum árstíma.“

Unnið er að því að fá nýja aðila að borðinu. „Það er búið að leggja peninga í markaðssetninguna og við erum að skoða að fá nýja aðila að borðinu. Við vorum að fara inn í þriðja árið með Super Break og því hefur komið ágætis reynsla á þetta flug,“ segir hún.

Arnheiður segist þannig binda vonir við að markaðssetningin hafi skilað sér til fleiri aðila og að önnur fyrirtæki séu til í að stökkva á millilandaflug milli Akureyrar og meginlands Evrópu eða Bretlandseyja.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir stefnt að því að fjölga ferðamönnum norður á Akureyri. Hann segir bæjarráðið hafa rætt við Isavia og lagt þar áherslu á að ef Akureyrarbær eigi að taka við auknu flugi þurfi að flýta uppbyggingu flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli.

Í gær var haldinn samráðsfundur ríkisstjórnarinnar og sveitarstjórna í Mývatnssveit. Fréttablaðið greinir frá því að ráðherrar séu áfram einhuga um að byggja upp ferðaþjónustu með beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll.