Rúmlega tvö þúsund nemendur brautskrást frá hí – ekki færri í rúman áratug

Á morgun, laugardaginn 22. júní, mun Háskóli Íslands brautskrá 2.010 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi við hátíðlega athöfn í Laugardalshöll. Alls útskrifuðust 444 í febrúar og því hafa í heildina 2.454 útskrifast frá skólanum það sem af er ári. Ekki hafa færri útskrifast frá HÍ á einu ári síðan 2009, þegar 2.192 brautskráðust.

Í tilkynningu frá HÍ segir að líkt og undanfarin ár verði brautskráningarathafnirnar tvær. Sú breyting verði nú frá síðustu árum að fyrri athöfnin hefst klukkan 10 og þar taka kandídatar í grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi, við útskriftarskírteinum sínum. Alls verða 1165 kandídatar brautskráðir úr grunnnámi að þessu sinni. Í þeirra hópi eru fyrstu nemendurnir sem brautskrást úr BS-námi í íþrótta- og heilsufræði sem hófu nám í Reykjavík eftir að námið var flutt frá Laugarvatni til borgarinnar.

Seinni brautskráningarathöfnina sækja nemendur sem eru að ljúka framhaldsnámi til prófgráðu, þ.e. meistara- og kandídatsnámi, og hefst hún kl. 14. Alls ljúka 845 kandídatar námi á framhaldsstigi. Þeirra á meðal eru fyrstu nemendurnir sem ljúka MS-prófi í sjúkraþjálfun og þá brautskráist einnig fyrsti nemandinn með M.Ed.-gráðu í menntun án aðgreiningar.

Á Félagsvísindasviði verða samtals brautskráðir 557 kandídatar, 491 á Heilbrigðisvísindasviði, 276 á Hugvísindasviði, 364 á Menntavísindasviði og 322 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Ekki færri í rúman áratug

Fjöldi brautskráðra á einu ári hafa ekki verið færri í rúman áratug, en árið 2009 voru þeir 2.192 talsins. Rétt er þó að geta þess að þá hafði brautskráningum fjölgað stöðugt frá aldamótum, en árið 2000 var fjöldi brautskráðra 1.016, eins og kemur fram í tölfræðisamantekt um brautskráningar á heimasíðu HÍ.

Árin eftir 2009 hélt aukningin í fjölda brautskráðra áfram og náði hámarki árið 2015, þegar 3.046 voru brautskráðir. Árin á eftir var fjöldi brautskráðra tæplega 3.000, eða 2.976 árið 2016 og 2.943 árið 2017. Í fyrra var fjöldi brautskráðra ögn færri, eða 2.808, og eins og áður segir er fjöldi brautskráðra 2.454 á þessu ári.