Róttækasta hugmyndin í kosningabaráttunni

Róttækasta hugmyndin í kosningabaráttunni

 

Róttækasta hugmyndin í kosningabaráttunni var kynnt í þættinum Í bítinu á Bylgjunni á miðvikudagsmorgun. Þorsteinn Víglundsson gerði þar grein fyrir hugmyndum um kerfisbreytingu í peningamálum sem Viðreisn ályktaði um á laugardaginn var. Það var uppörvandi því fram til þessa hefur kosningaumræðan helst snúist um að lofa útgjöldum umfram tekjur.

Hugmyndin sem Þorsteinn talaði fyrir og vill að verði skoðuð í alvöru er fastgengisstefna sem kölluð hefur verið myntráð. Þetta er ekki ný uppgötvun. Hún var meðal annars reynd í Eystrasaltslöndunum áður en þau tóku upp evru. Og hún er einn af kostunum í skýrslu Seðlabankans um þetta efni.

Þetta er heldur ekki patentlausn. Það er eins með hana og önnur myntkerfi að vega þarf kosti á móti göllum.  Kostirnir eru stöðugleiki og lægri vextir. Þetta eru markmið sem bæði forystumenn launafólks og atvinnulífs hafa kallað eftir. En stjórnmálin hafa fram til þessa skotið sér undan að ræða leiðir að þeim markmiðum.

Kerfisbreyting af þessu tagi á til að mynda að gera verðtryggingu óþarfa. En aðalatriðið er að skapa launafólki og atvinnufyrirtækjum samkeppnishæfa mynt og að eyða þeirri ójöfnu aðstöðu sem nú ríkir þar sem sumir geta athafnað sig utan krónuhagkerfisins en aðrir ekki.

Aðferðin felst í því að tengja íslensku krónuna við helstu viðskiptamyntina eða hugsanlega körfu helstu viðskiptamynta. Þrjár síðustu ríkisstjórnir hafa lagt grunn að því að einmitt núna er raunhæft að hreyfa þessari hugmynd. Byrjunina má rekja til samningsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Tvö lykilatriði skipta hér máli. Annars vegar hefur byggst upp nokkuð öflugur gjaldeyrisvarasjóður. Hugsanlega þarf hann þó að verða nokkuð stærri. Hins vegar er kominn þokkalegur jöfnuður á ríkisfjármálin og búið að samþykkja ríkisfjármálaáætlun til fimm ára. Því má þó ekki gleyma að óraunhæf kosningaloforð ógna þessum árangri.

Þriðja atriðið sem hér þarf að hafa í huga er vinnumarkaðurinn. Kerfisbreyting af þessu tagi tekst ekki nema hann taki fullan þátt. Flestir þekkja þjóðarsáttina sem gerð var fyrir aldarfjórðungi. Færri vita að ein af helstu forsendum hennar var að þáverandi ríkisstjórn féllst á kröfu verkalýðshreyfingarinnar um gengisfestu og tvær næstu ríkisstjórnir tóku þá ákvörðun hátíðlega.

Myntráð kallar á mikinn aga í ríkisfjármálum. Önnur forsenda hennar er að samtökum launafólks og atvinnulífs takist að gera norræna vinnumarkaðsmódelið að veruleika eins og þau hafa stefnt að. En allt eins mætti segja að kerfisbreyting í peningamálum sé forsenda fyrir því að það dæmi gangi upp.

Fastgengi fylgir minni sveigjanleiki til að rýra kjörin. Að sjálfsögðu þarf að ræða þá breytingu.

Þó að Viðreisn hafi sett umræðu um þessa hugmynd á dagskrá núna eru hún stærri en svo að hún geti verið einkamál eins flokks. Um hana þarf að nást það breið pólitísk samstaða að hún lifi af stjórnarskipti. En það má ekki fresta umræðunni af því að verkefnið er viðamikið og vandasamt.

Björgúlfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group sagði á fjármálaþingi Íslandsbanka á miðvikudag: „Ég er ekki svartsýnn  fyrir hönd míns félags en mér finnst styrking á gengi krónunnar og vaxtastefnan galin. Punktur.“ Þetta eru sterk orð.

Til þess að breyta því sem er galið þarf nýjar hugmyndir. Hér hefur einni raunhæfri hugmynd verið fleytt. Ætla stjórnmálaflokkarnir að ræða þetta alvörumál í kosningabaráttunni? Eru fleiri hugmyndir á borðinu? Eða ætla menn að þegja sig frá viðfangsefninu eins og oft áður?   

 

  

 

 

 

Nýjast