Rósa björk sakar brynjar um karlrembu: „auðvitað er ekki hægt að tala um fótbolta við kjellingar“

Dregið var um sætaskipan á Alþingi þegar þing kom saman á þriðjudag. Ekki eru allir á eitt sáttir við sætaskipanina. Þeirra á meðal eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Brynjar kveðst í samtali við Vísi vera sáttur með sessunaut sinn á hægri hönd, Willum Þór Þórsson, þingmann Framsóknarflokksins. „Við Willum Þór getum rætt knattspyrnu enda einhverjir gáfuðustu menn um knattspyrnu um allt Ísland, að eigin mati,“ segir Brynjar.

Hann efast um að hann og sessunautur sinn á vinstri hönd, Rósa Björk, eigi mikið sameiginlegt. „Ég er ekki viss um að samtöl okkar Rósu verði með sama hætti. Ég tel að það séu ekki nokkrar líkur á því að við munum eiga samræður um annað en pólitík og þá til að deila.“

Í samtali við Vísi tekur Rósa Björk í sama streng. „Ég býst ekki við að tala mikið við Brynjar í vetur enda hef ég ansi lítið til að tala um við hann.“

Þá sakar hún Brynjar um karlrembu á Twitter-síðu sinni: „Brynjar Níelsson ætlar bara að tala um fótbolta við Willum Þór. Veit greinilega ekki að ég æfði fótbolta í mörg ár með Breiðablik, margfaldur Íslandsmeistari og var í U17 landsliðinu. En auðvitað er ekki hægt að tala um fótbolta við kjellingar. Nenni ekki að tala við rembur.“