Ronja er aðeins 3 ára og berst fyrir lífi sínu: er haldið sofandi í öndunarvél - foreldrar í sárum – söfnun hrundið af stað

Ronja er aðeins 3 ára gömul og tekst á við erfið veikindi. Er henni haldi sofandi í öndunarvél. Móðir hennar, Ása Birna Ísfjörð og Bjarni faðir stúlkunnar bíða nú eftir niðurstöðum úr blóðprufum svo hægt sé að meta stöðuna. Ekki er hægt að senda Ronju í sneiðmyndatöku á heila til að athuga með heila stúlkunnar en það verður gert þegar stúlkan losnar við öndunarvélina. Mikill kostnaður er fyrir foreldrana samhliðina því að takast á við veikindin með dóttur þeirra.

Friðgeir Bergsteinsson sem þekktur er fyrir störf sín fyrir KR og í Tólfunni, stuðningsmannafélagi landsliðsins, fékk hugmynd að halda uppboð til styrktar stúlkunni og foreldrunum á þessum erfiðu tímum en Friðgeir hefur gert slíkt áður. Friðgeir segir: „Nú liggur hugur minn út fyrir landsteinana til að styrkja góða vini og fjölskyldu í Noregi.

„Þannig er mál með vexti að ég sá að dóttir vinkonur minnar er alvarlega veik á sjúkrahúsi í Noregi. Ég hafði samband við mömmu hennar, Ásu og spurði hana hvort ég mætti fara af stað með söfnun fyrir fjölskylduna. Hún gaf mér leyfi. Þar sem báðir foreldrarnir eru frá vinnu og dóttir þeirra svona mikið veik langar mig að hjálpa þeim með smá uppboð af einhverju.“

Friðgeir hafði samband við Guðjón Val Sigurðsson handboltakappa og hann gaf treyju sem boðin verður upp. Er treyjan einnig árituð. Friðgeir segir:

„Ég fékk þær upplýsingar að Ronja er með sjúkdóm sem heitir MMA cblb og er efnaskiptasjúkdómur. Hann gerir það að verkum að Ronja hefur ekki nægileg ensím ì frumunum til að brjóta niður prótein i fæðu. Hún er á sondumat sem þarf að gefa henni allan sólarhring á 3 tíma fresti. Ef hún verður veik eða fær of mikið eða of lítið af próteini þá getur ammoníak hækkað og getur það lagst á miðtaugakerfið og valdið skemmdum i heila.

Á sunnudaginn sl. lenti hún i krísu sem ekki er vitað af hverju það gerðist en gerðist mjög hratt allt saman. Hún var lögð inn á sjúkrahús og henni er haldið sofandi í öndunarvél og ekki er vitað akkúrat núna með framhaldið.

Núna er verið að bíða eftir niðurstöðum úr síðustu blóðprufum og þá verður metið stöðuna. Ekki er hægt að senda hana i sneiðmyndatöku á heila til að athuga með skemmdir á heilanum. En það mun vera gert þegar hún verður laus við öndunarvélina og vita foreldrarnir ekki með framhaldið.“

Friðgeir segir:

„Þau vita ekki hvenær þau geta byrjað að vinna aftur. Þau taka einn dag í einu og þakka öllum fyrir góðan stuðning. Nú fer uppboðið af stað og fyrsta boð er 20 þúsund. Ef þig langar að bjóða meira í treyjuna hans Guðjóns Vals, ertu beðinn að senda mér skilaboð hér og ég læt þig vita hvar uppboðið stendur. Hver veit nema eitthvað meira kemur með treyjunni en ég læt vita af því um leið.“

Þá kveðst Friðgeir einnig taka á móti, fyrir hönd fjölskyldunnar, frjálsum framlögum. „Ykkur velkomið að heyra í mér og ég sendi ykkur bankaupplýsingar sem eru í eigu Ásu Birnu mömmu Ronju. Boð í treyjuna stendur nú í 100.000 krónum. Hér er að finna frekari upplýsingar um söfnunina.