Ritstjórarnir: fótbolti, forseti og brexit

Þrjár harla ólíkar stórfréttir verða til umræðu í Ritstjórunum á Hringbraut í kvöld, frammistaða strákanna okkar á EM í Frakklandi sem vakið hefur heimsathygli, forsetakosningarnar heima á Íslandi og afleiðingar af útgöngu Breta úr ESB fyrir heimamenn og aðrar þjóðir í grennd.

Það eru þau Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fréttastjóri Fréttatímans og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans sem setjast að þessu sinni á rökstóla með Sigmundi Erni og fara yfir þessar stórfréttir. Þremenningarnar reyna að ráða í ástæður þess af hverju Íslendingum gengur svona vel á EM, af hverju þjóðin kaus á endanum Guðna TH. Jóhannesson í forsetaembættið og hafnaði öðrum kostum og munu í lokin skýra út hversu mikið áfall það er og verður fyrir Breta, pundið og efnahags- og atvinnulífið vestan Ermarsunds að standa allt í einu utan ESB eftir ríflega 40 ára veru innan þess en Bretland mun líklega liðast í sundur af þess völdum og hagur alls almennings í landinu versna, að mati viðmælenda Sigmundar Ernis, ekki síst innflytjenda sem fylla upp í þau fjölmörgu störf sem heimamenn líta ekki við.

Ritstjórarnir eru á dagskrá Hringbrautar klukkan 21:30 í kvöld.