Ríkisstjórn átaka og ósamlyndis

Eygló Harðardóttir hefur eflaust ekki meint bókstaflega að hún hafi átt í eilífu slagsmálum við ráðherra Sjálfstæðisflokksins allt þetta kjörtímabil. Eygló meinar eflaust að hún hafi verið í eilífum átökum um framgang sinna mála. Enginn ráðherra, hvorki Sjálfstæðisflokksins né Framsóknarflokksins hafa mótmælt lýsingu Eyglóar á samlyndi innan ríkisstjórnarinnar.

Hvernig má það vera að almenningur í landinu fái fyrst að vita um þetta öfgakennda andrúmsloft innan ríkistjórnar Íslands, þegar ráðherrann Eygló greinir frá því í óspurðum fréttum. Hvers vegna vissu fjölmiðlar ekkert um þetta? Sváfu þeir á vaktinni?

Reyndar hefur núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra játtað í samtölum þegar ég var á Sprengisandi að hann hafi verið svekktur og sár þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins stöðvuðu í ríkisstjórn fullsamið frumvarp hans um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, ný kvótalög. Í svipinn man ég ekki eftir fleiri dæmum. Þau er samt aflaust til þó ég muni þau ekki.

Hér fyrrum skrifaði ég daglegar fréttir um stjórnmál. Þá voru sagðar fréttir af ágreiningi innan ríkisstjórna, innan þingflokka, innan þingnefnda. Og það auðvitað. Opinberun Eyglóar verður að fá fjölmiðlana til að rumska við. Það er okkar, sem störfum á fjölmiðlum, að kanna enn frekar hvort landinu sé stjórnað í ósamlyndi og átökum. Almenning varðar um það. Ekki síst nú skömmu fyrir kosningar.