Þetta er leiðtogi íslensku nýnasistasamtakanna sem stígur loksins fram: „það hefur verið mjög gott að fá félagana hingað til lands“

Ríkharður Leó Magnússon, einnig þekktur sem Bror Vakur, lýsir sér sem leiðtoga Norðurvígis, Íslandsdeildar nýnasistasamtakanna Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar. Í gær vakti fámenn samkoma á Lækjartorgi athygli, þegar um 15 nýnasistar, flestir þeirra erlendir, veifuðu fánum og reyndu að útbýta dreifimiðum sem innihélt nýnasista áróður.

Stundin hefur fjallað ítarlega um samkomuna og mennina sem standa henni að baki. Í nýjustu frétt miðilsins um málið er greint frá því að Ríkharður hafi staðið fyrir þessari komu á annars tug norrænna nýnasista til landsins. Þeirra á meðal er Simon Lindberg, leiðtoga nýnasista á Norðurlöndum. Lindberg er dæmdur ofbeldismaður sem hefur fengið dóma fyrir hatursglæp og ofbeldi gegn samkynhneigðum.

Hefur Ríkharður átt í nánum samskiptum við aðrar deildir hreyfingarinnar á Norðurlöndum og var til að mynda viðstaddur göngu Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar í Ludvika þann 1. maí síðastliðinn, þar sem nýnasistar Norðurlanda gerðu sig sýnilega.

„Ég hef verið í mótstöðuhreyfingunni frá 2016 og hef hjálpað til við að stækka deildina sem hefur gengið hægt en stöðugt. Við erum með góða meðlimi núna. Ég bauð Skandinövunum að koma hingað frá Norðurlöndunum til að vera með okkur í „business and pleasure“, bæði aðgerðum og skoðunarferðum,“ sagði Ríkharður í ónefndum hlaðvarpsþætti sem var tekinn upp á dögunum. Í þættinum staðfesti Ríkharður að hann væri leiðtogi Norðurvígis.

Hann kvaðst fagna komu norrænu nýnasistanna hingað til lands. „Það hefur verið mjög gott að fá félagana hingað til lands þar sem við erum frekar einangruð.  Fyrir íslensku meðlimina, sérstaklega þá nýju sem hafa ekki hitt meðlimi frá Skandinavíu, er gott að hitta reynda hermenn til að komast inn í baráttuna.“

„Þjóðernis félagshyggja er það eina sem virkar og það eina sem fólk á að horfa til. Hún er góð fyrir alla,“ bætti hann við.

Boðað til mótmæla gegn nýnasisma

Klukkan þrjú á morgun munu fara fram mótmæli gegn nýnasisma á Lækjartorgi. Á meðal ræðumanna verða Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, og Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.