Rihanna skar 80 milljarða af snapchat

Fordæming tónlistarkonunnar Rihönnu á auglýsingu Snapchat fyrirtækisins á fimmtudag lækkaði markaðsvirði þess snarlega um 80 milljarða króna. Í auglýsingunni voru áhorfendur spurðir hvort þeir vildu heldur „slá Rihönnu“ eða „kýla Chris Brown“.

Rihanna sætti alvarlegu heimilisofbeldi af hálfu Chris Browns árið 2009. Rihanna sagði að auglýsing Snapchat væri niðurlægjandi og gerði grín að fórnarlömbum heimilisofbeldis. „Skammist ykkar“ sagði hún á Instagram og hvatti notendur til að henda Snapchat-appinu.

Snapchat baðst afsökunar, sagði auglýsinguna ógeðslega og hefði aldrei átt að vera birt. En skaðinn var skeður, verð hlutabréfa móðurfyrirtækis Snapchat lækkaði um 3,6 prósent, sem jafngildir því að markaðsvirði þess hafi lækkað um 800 milljónir dala, jafnvirði rétt rúmlega 80 milljarða króna.