Rifjar upp skelfilegt slys á reykjanesbraut: fékk aðra lífssýn - „það er þá svona þegar maður deyr“

Tónlistarmaðurinn Einar Egilsson rifjar upp í viðtali við DV þegar hann og meðlimir í hljómsveitinni Steed Lord lentu í alvarlegu bílslysi á Reykjanesbraut árið 2008. Meðlimir sveitarinnar voru Svala Björgvinsdóttir söngkona og bræðurnir Einar, Erling og Eðvarð Egilssynir ásamt föður þeirra, Agli Eðvarssyni. Einar og Svala voru par á þessum tíma en þau ákváðu að skilja á síðasta ári.

Hljómsveitin var á leið í flug þegar bílstjóri úr gagnstæðri átt missti stjórn á bíl sínum og hafnaði hann framan á bíl þeirra. Þakkar Einar að faðir hans hafi verið við stýrið þennan morguninn því hann keyri hægt. Einar segir:

„Ég sá blátt flykki koma. Síðan  heyrðist hræðsluöskur. Og maður tók höggið.“

\"\"

Erling var í framsætinu en Einar, Eðvarð og Svala í aftursætinu. Lýsir Einar slysinu á þann hátt að strax við höggið hafi tíminn liðið hægar. Þá kom sjúkrabíll á svæðið ekki fyrr en 18 mínútum síðar.

 „Mér fannst þetta líða eins og tveir klukkutímar. Það var mikil reykur, öskur og kuldi. Þetta var eins konar súrrealísk upplifun og mér fannst þetta vera eins og eitthvert djók. Þetta væri ekki að gerast,“ segir Einar og bætir við: „Síðan tók við skelfing og örvænting og ég fylltist af adrenalíni. Ég vissi ekki hvort það væri í lagi með fjölskyldu mína. Til að byrja með hélt ég að svo væri ekki. Ég var með fullri meðvitund og gat hreyft mig. Þegar ég losaði bílbeltið sá ég að það var aðeins grafið inn í mig. Ég fór strax að reyna að hjálpa, en svo kom í ljós að ég var sjálfur alvarlega slasaður.“

\"\"Einar gerði sér ekki grein fyrir hversu alvarlega slasaður hann var. Hann lýsir því á þann hátt að allt hafi sprungið inn í honum og verið með miklar innvortis blæðingar. Hann fann þó ekki fyrir neinum sársauka fyrr en á spítalanum þegar dregið hafði úr framleiðslu á adrenalíni. Einar og Eðvarð fóru strax í aðgerð og Einar lést næstum af sárum sínum. Honum var haldið sofandi og vaknaði fjórum dögum síðar. Þá tók við nokkrir mánuðir í endurhæfingu og frekari aðgerða. Sárin gréru illa og þá hefur Einar glímt við bakverki.

Þá hefur Svala Björgvins einnig rifjað upp slysið. Það gerði hún í þætti í Sjónvarpi Símans. Svala sagði: „Þegar maður horf­ist í augu við dauðann, Ein­ar hefði getað dáið eða ég, hugs­ar maður; svona get­ur gerst á broti úr sek­úndu. Þess vegna verður maður alltaf að nýta hvert augna­blik.“

Egill, faðir Einars rifjaði einnig upp slysið og kvaðst hafa haldið að þarna hafi hans seinasta stund verið runnin upp:

„Svo bara kemur þögn. Dauðaþögn. Maður hugsaði bara: „Já..það er svona þegar maður deyr..?““

Aðspurður hvernig Einar sjái slysið í dag, hvaða tilfinningar hann beri til þess, segir Einar að lífsreynslan sé mjög jákvæð. Einar segir:

„Samheldnin í fjölskyldunni var mikil og ég fann fyrir miklum stuðningi frá bæði vinum og ókunnugu fólki. Ég fann fyrir fallegri orku á spítalanum og starfsfólkið stóð sig vel. Það hefði verið auðvelt að sökkva sér ofan í volæði yfir því að vera fastur þarna og að sumar aðgerðirnar hefðu ekki gengið sem skyldi. En ég fann einhverja innri ró í öllu þessu ferli og í dag finnst okkur öllum í fjölskyldunni vænna um lífið sjálft. Ég fékk aðra lífssýn og veraldlegir hlutir skipta mig ekki jafn miklu máli og áður. Þetta var harkaleg áminning um hversu dýrmætt lífið er og hversu litlu getur munað að illa fari.“