Rifjar upp lát ástríðar

 Fólk var slegið yfir fréttum sem bárust haustið 2014 um að ung kona hafði svipt sig lífi á Vogi. Ástríður Rán Erlendsdóttir var 22ja ára, móðir fjögurra ára drengs og hafði barist við eitulyfjafíkn frá unglingsaldri.

Amma Ástríðar og nafna, Ástríður Grímsdóttir gefur nú út barnabók í minningu Ástríðar Ránar en hún hefði orðið 25 ára nú í júlí. Sögurnar samdi Ástríður fyrir dótturdóttur sína þegar hún var yngri. Hún mætti á Þjóðbraut á fimmtudaginn til Lindu Blöndal.

 

Um þessar mundir berast okkur fréttir af fleirum sem hafa fyrirfarið sér innan geðsjúkrahúsa. Í síðustu viku var það ungur maður á geðdeild sem tók líf sitt innan spítalans á sjálfsvígsvakt, kona greinir frá því á Facebook-síðu sinni frá því að móðir hennar hafi tekið eigið líf á geðdeild. Og á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri fyrirfór sér ungur maður fyrir fimm árum.

Ástríður segir þessar fregnir að sjálfsögðu ýfa upp sárin eftir fráfáll Ástríðar Ránar. Hún hafði ekki löngu fyrir lát hennar ekið Ástríði Rán á bráðamóttöku geðdeildar en verið vísað frá vegna plássleysis. Á þeim tímapunkti var Ástríður Rán að gefast upp, bað um hjálp og skrifaði ömmu sinni skilaboð um að hún vildi enda líf sitt. Eftir að hafa verið vísað frá sjúkrahúsinu fór Ástríður Rán beina leið niður í bæ til að sprauta sig.