Reykjavík fær hæstu einkunn sem leiðandi borg í loftslagsmálum

Reykjavík er í þeim hópi borga sem er skilgreindur sem alþjóðlegir leiðtogar í loftslagsmálum . Borgin er skilgreind á A-lista fyrirtækisins yfir borgir sem draga vagninn í loftslagsmálum. Ár hvert skila fleiri en 600 borgir gögnum um aðgerðir í loftslagsmálum til fyrirtækisins CDP og sýna þannig aðgerðir sínar og metnað á gagnsæjan hátt á alþjóðlegu vefsvæði CDP.  

Árið 2018 skiluðu 625 borgir inn gögnum til CDP og fá þar með tölfræðilega innsýn í þau tækifæri sem þau hafa til að þróa loftslagsstefnu og þörfina fyrir verkefni sem þarfnast fjárfestingar.

Fyrirtækið birtir nú listann í fyrsta sinn til að sýna hvaða borgir eru fremstar meðal jafningja í loftslagsmálum en tilgangurinn er að hvetja fleiri borgir til að herða sig í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.  Á árinu 2018 hefur CDP gefið borgum einkunnir á bilinu A til D sem byggja á uppgefnum gögnum um hvernig þær stjórna, mæla og takast á við útblástur gróðurhúsalofttegunda og aðlaga sig að áhættu þeirra.

Kyra Appleby, stjórnandi alþjóðamála borga, ríkja og landsvæða hjá CDP segir að borgir geti einfaldlega ekki stjórnað því sem þær mæla ekki. „Þannig gefa upplýsingar um tölfræði í umhverfismálum sterkar vísbendingar um aðgerðir í loftslagsmálum. Aðeins 7% borga sem skiluðu CDP tölfræðigögnum 2018 fengu A. Ég óska Reykjavík til hamingju með að hafa sýnt fram á leiðtogahæfni sína á alþjóðlegum vettvangi og staðfestu í því að takast á við loftslagsbreytingar og vernda íbúa sína.“

Reykjavík fékk viðurkenninguna fyrir aðgerðir sínar á síðasta ári sem fólust í því að þróa heilbrigðar aðferðir gegn loftslagsbreytingum, mæla og framkvæma til að draga úr útblæstri, meta og minnka áhættuna af loftslagsbreytingum og gefa skýrslu um þessar upplýsingar til CDP á gagnsæjan hátt.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þetta mikla viðurkenningu fyrir borgina. „Við fórum í þetta samstarf á sínum tíma til þess einmitt að geta mælt árangur á sambærilegan hátt og aðrar borgir. Það er líka gaman að sjá hvaða borgir eru þarna með okkur en það eru framsæknustu borgir í loftslagsmálum um allan heim eins og París, London, New York, Sidney, San Fransisco og margar fleiri,“ segir Dagur og bætir við.  „Samstarfið við CDP hefur gengið vel en við þurfum að gera enn betur í loftslagsmálunum. Stærsta áskorunin eru samgöngurnar en sem betur fer erum  við erum að sjá stöðuga fjölgun hjá þeim sem hjóla, taka strætó eða ganga til og frá vinnu. Þá er Borgarlínuverkefnið að komast af stað en það mun fjölga farþegum almenningssamgangna gríðarlega. Við ætlum okkur einnig að fækka bensínstöðvum, endurheimt votlendis er hafin og borgarráð hefur samþykkt að fara af krafti í gróðursetningu Loftslagsskóga Reykjavíkur í samvinnu við atvinnulíf og heimili. Þannig að það er nóg fram undan og gefur þetta okkur byr í seglin ef við ætlum að verða kolefnishlutlaus borg árið 2040 eins og markmiðið er í Loftslagsstefnu Reykjavíkur.“

Með því að gefa út skýrslur og opinbera þar með gögn sín í loftslagsmálum sýna borgirnar á A lista CDP gott fordæmi fyrir borgir um allan heim til að draga úr losun og byggja upp varnir gegn loftslagsbreytingum. Síðasta skýrsla IPCCC sýnir að heimsbyggðinni er ekki að takast að halda hlýnun jarðar innan 1,5 °C markanna. Þetta þýðir að jafnvel hálf gráða hlýnunar til viðbótar mun auka áhættuna á þurrkum, flóðum, gríðarmiklum hita og fátækt fyrir hundruð milljóna fólks.

Núverandi markmið munu leiða til hlýnunar að 3°C. Borgir gegna lykilhlutverki í því að hraða aðgerðum á landsvísu og draga úr útblæstri í samræmi við niðurstöður vísindanna um 1,5°C markið.

Niðurstöður í skýrslu Sameinuðu Þjóðanna frá árinu 2018, sýna fram á brýna þörf fyrir að borgir hraði aðgerðum sínum til að auka metnað í heimalöndum sínum. Í skýrslunni kemur fram að borgir og héruð leggja í raun meira til loftslagsaðgerða en sjálfar þjóðirnar sem hafa sett sér markmið. Þar með auka þessir aðilar sjálfstraust á loftslagsaðgerðum á landsvísu, setja góð fordæmi með markvissri vinnu og leggja þannig línurnar að stefnumörkun í loftlagsmálum fyrir lönd sín.