Allt á suðupunkti: sjáðu bréfið - starfsmenn lýsa yfir vantrausti á stjórnina - „heilbrigðisráðherra grípi inn í“

Starfsmenn Reykjalundar hafa lýst yfir vantrausti á stjórnina vegna tveggja brottrekstra. Hringbraut greindi frá því að um mánaðarmótin hafi Birgi Gunnarssyni forstjóra verið sagt upp störfum. Í gær greindi Vísir svo frá því að Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga og yfirlæknir á Reykjalundi hafi einnig verið sagt upp aðeins fáum vikum eða mánuðum fyrir fyrirhuguð starfslok hans.

Mikið hefur gengið á á Reykjalundi í dag og nú í hádeginu lýstu starfsmenn yfir vantrausti á stjórnina. Í bréfinu segir:

Við undirritaðir starfsmenn Reykjalundar, endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS, lýsum yfir vantrausti á stjórn Reykjalundar.

Stjórn stofnunarinnar, sem er í höndum stjórnar SÍBS, vék forstjóra fyrirvaralaust úr starfi í lok september. Í gær var framkvæmdastjóra lækninga vikið úr starfi með sama hætti. Þótt Reykjalundur sé í eigu SÍBS þá er stofnunin rekin á grundvelli þjónustusamnings við heilbrigðisyfirvöld og fjármögnuð með skattfé landsmanna. Um starfsemi Reykjalundar gilda lög um heilbrigðisþjónustu.

Við teljum Reykjalund nú vera óstarfshæfa heilbrigðisstofnun sem fullnægir ekki lagaskilyrðum um heilbrigðisstofnanir.

Við höfum miklar áhyggjur af framtíð stofnunarinnar og sjúklingum hennar.

Við lýsum vantrausti á stjórn Reykjalundar vegna hranalegrar og ómanneskjulegrar framkomu sem skapar óvissu, óöryggi og vanlíðan sem gerir stofnunina í raun óstarfhæfa. Fyrirséð er að þetta muni bitna harkalega á skjólstæðingum sem þurfa endurhæfingu á þessari stærstu endurhæfingarstofnun á Íslandi.

Við förum þessa á leit að heilbrigðisráðherra grípi inn í stöðu mála á Reykjalundi með hverjum þeim hætti sem hann telur sér heimilt. Við teljum þetta vera nauðsynlegt svo ekki hljótist varanlegur skaði af núverandi ástandi fyrir starfsemi Reykjalundar og þjónustu stofnunarinnar í þagu sjúklinga.

\"\"