Reiðhjólaslysum fjölgað vegna ljóts leiks: „þetta lagar því miður ekki þessa hegðun en getur hugsanlega komið í veg fyrir að þeir geri þetta“

Steinar Kjartansson ákvað í ljósi þess að mikið hafi verið um þann ljóta leik að verið sé að losa um rær á reiðhjólum barna að reyna að finna upp á lausn sem hann telur að geti aukið öryggi þeirra.

„Þetta lagar því miður ekki þessa hegðun hjá hjá þessum kjánum sem gera þetta en getur allavega hugsanlega komið í veg fyrir að þeir geri þetta,“ segir Steinar í samtali við Hringbraut.

Steinar hefur sjálfur ekki persónulega reynslu en sonur vinnufélaga hans lenti í þessu á dögunum og endaði sú ferð á bráðamóttökunni.

„Ég græjaði þetta á hjóli sonar míns því ég hafði heyrt af svona atviki í skólanum hans. Þetta getur hjálpað börnunum að sjá í fljótu bragði hvort átt hafi verið við arminn á rónni. Með því að herða plastbensli yfir arminn á rónni má jafnvel koma í veg fyrir að hún sé losuð en í öllu falli ætti að vera augljóst ef átt hefur verið við hana.“

Bendir Steinar á að plastbenslið fáist í flestum byggingavöruverslunum í rafmagnsdeildinni.

„Stærri gerðirnar af þessu eru mjög sterkar. Ég hef sett svona á hjólið hjá syni mínum og beðið hann um að fylgjast með hvort þetta sé ekki óhreyft áður en hann notar hjólið.“

Myndin hér fyrir neðan útskýrir betur hvernig koma eigi plastbenslinu fyrir:

 \"\"