Refsa verður ísraelum en ekki hampa

Bandaríkjastjórn hefur fyrirgert rétti sínum sem sáttasemjari í deilu Ísrelsmanna og Palestínumanna. Hún er orðin partur af vandamálinu. Með því að opna sendiráð sitt í Jerúsalem hefur hún ögrað palestínsku þjóðinni á svo afgerandi hátt að jafna verður við stríðsyfirlýsingu. Varla hefur nokkur forseti Bandaríkjanna stefnt eigin þjóð í jafn mikla hættu með jafn arfavitlausri ákvörðun.

Ísraelsstjórn hefur þevrbrotið alþjóðalög og samninga svo að segja frá stofnun ríkisins. Hún rænir palestínska þjóð land sínu eins og henni sýnist - og svífst þar einskis. Hún hefur lokað íbúa Gaza-strandarinnar af í fangelsi og girt af leiðir Palestínumanna á Vesturbakkanum á milli heimilis þeirra og vinnu. Múrinn þar jafngildir nú vegalengdinni milli Reykjavíkur og Eskifjarðar.

Aljþóðasamfélagið refsar þjóðum og ríkisstjórnum þeirra ef farið er á svig við reglurnar sem það setur. Það á við um Íran, Norður-Kóreu, Tyrkland og Rússland sem allt eru meira og minna einræðisríki sem virða mannréttindi að vettugi. Það er kominn tími á refsiaðgerðir gagnvart Ísraelum fremur en að verðlauna stjórnvöld þar fyrir yfirgang og viðbjóðslega mannfyrirlitningu.

  .