Ratcliffe segir náttúruvernd eina tilgang aðkomu sinnar á norðausturlandi – samþykkti virkjun þverár í fyrra

James Ratcliffe, stjórnarformaður Ineos og einn ríkasti maður Bretlands, hefur staðfest kaup sín á jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði. Hann segir kaupin hluta af yfirstandandi aðgerðum til verndar íslenska laxastofninum. Ratcliffe hefur sem kunnugt er keypt tugi íslenskra jarða á Norðausturlandi á undanförnum árum og er nú einn umsvifamesti landeigandi á Íslandi.

 „Ofveiði ógnar stofni Norður-Atlantshafslaxins og honum fækkar hvarvetna í ám. Norðurausturhluti Íslands er einn af fáum uppeldisstöðvum laxins sem sloppið hefur hingað til og ég vil gera hvað ég get til verndar svæðinu,“ segir Ratcliffe í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun.

Í tilkynningunni segir að kaupin á Brúarlandi séu hluti af langtímaverndaráætlun á Íslandi sem hefur að markmiði að laxveiðar landsins verði þær bestu og sjálfbærustu sem fyrirfinnist í heiminum.

Ratcliffe hyggst standa að ítarlegri langtímarannsókn á afkomu íslenska laxins í ánum og í norðanverðu Atlantshafi. Rannsóknirnar eru sagðar munu fara fram í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og háskóla hérlendis og erlendis.

„Norðausturland stendur hjarta mínu nær. Eftir því sem heimsóknunum þangað fjölgar eykst löngun mín til þess að gefa svæðinu til baka, til að hjálpa Norður-Atlantshafslaxinum, sem er ógnað, og einnig til að styðja við samfélagið nærri ánum. Mín skoðun er að sjálfbær langtímanálgun með starfsemi sem stendur undir eigin fjármögnun skipti sköpum, geri laxinum kleift að þrífast vel, ekki bara um skemmri tíma heldur um alla framtíð,“ segir Ratcliffe.

„Náttúruvernd hefur alltaf verið og verður áfram eini tilgangur aðkomu minnar á Norðausturlandi Íslands. Ég vil leggjast á árar við að viðhalda laxastofnunum þar, og vinna náið með bændum og byggðarlögum. Von mín er að úr starfinu verði til sjálfbær starfsemi í sátt við náttúruna, sem einnig komi lífríki svæðisins og samfélaginu öllu til góða,“ bætir hann við.

Skýtur skökku við

Í fyrra greindi RÚV frá því að Ratcliffe hefði selt virkjunarrétt að Þverá í Vopnafirði á Norðausturlandi. Við það tilefni sagði Bjartur Aðalbjörnsson, sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar í Vopnafirði, að það skyti skökku við að Ratcliffe, yfirlýstur umhverfisverndarsinni, hafi heimilað virkjun sem þessa og gagnrýndi andvaraleysi meirihluta sveitarstjórnar Vopnafjarðar. Um var að ræða samkomulag fyrri og annarra landeigenda sem Ratcliffe hafi að athuguðu máli ákveðið að setja sig ekki upp á móti.

„Sveitarstjórnarmenn úti á landi verða að hætta að segja alltaf já og amen þegar auðmenn koma og vilja framkvæma úti á landi. Við erum að tala þarna um stöðvarhús, pípur, vegi og 80 metra breiða og 20 metra háa stíflu sem er sjónmengun og eyðilegging á annars ósnortnu landslagi,“ sagði Bjartur í samtali við RÚV í fyrra.

Þverárdalur ehf. hyggst reisa allt að 6 MW virkjun. Félagið er í eigu Arctic Hydro sem áformar smávirkjanir víða um land. Engeyingurinn Benedikt Einarsson er stjórnarformaður Arctic Hydro og á þriðjungshlut í gegnum félagið Hæng. Meðal annarra eigenda er Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í gegnum Íslenska Vatnsorku.

Gísli Ásgeirsson, náinn samstarfsmaður Ratcliffe, sagði við RÚV að aðrir landeigendur hafi lagt kapp á að virkja ána. „Og við vildum ekki standa í vegi fyrir því. Við gerðum reyndar ákveðna fyrirvara fyrir okkar samþykki um að það yrði gætt fyllstrar varúðar gagnvart náttúrunni,“ sagði hann.

Gísli bætti því við að virkjunin hafi farið í umhverfismat, þó lög krefjist þess ekki. Þá geti þeir gengið úr verkefninu ef sveitarstjórn setur sig upp á móti. Hann sagði að verkefnið snerist ekki um peninga, heldur vilja heimamanna og að ekkert bendi til þess að virkjunin hafi skaðleg áhrif á laxinn, sem gangi ekki að neinu ráði upp í Þverá. Það verði þó rannsakað og umhverfið fái að njóta vafans.

„Það verður að segjast eins og er að vatnsaflsvirkjanir eru nú kannski sá umhverfisvænasti kostur sem hægt er að velja, ef það á á annað borð að fara í einhverjar framkvæmdir sem þessar,“ segir Gísli.

Hringbraut hefur áður greint frá því að Ratcliffe hygðist flytja lögheimili sitt til Mónakó til þess að sleppa við 4 milljarða punda í skattgreiðslur. Þá kom einnig fram á Hringbraut síðasta haust að Ratcliffe hefði keypt hluta af jörð af Þórunni Egilsdóttur, þingflokksformanni Framsóknarflokksins, en hún hafði hvatt til þess á þingi að strangari reglur myndu gilda um erlent eignarhald á jörðum.

15:34 - Fréttin hefur verið uppfærð eftir að ábending barst um að Ratcliffe hafi ekki selt virkjunarrétt að Þverá, eins og áður var haldið fram, heldur hafi verið um að ræða samkomulag milli landeigenda.