Rannveig sigurðardóttir skipuð aðstoðarseðlabankastjóri

„Ég er náttúrulega mjög ánægð með að vera fyrsta konan sem er skipuð í æðstu stjórn bankans. Ég held þetta hafi líka þýðingu fyrir fyrirmyndir í þjóðfélaginu. Stúlkur þurfa að hafa sínar fyrirmyndir eins og strákar. Við vitum að fyrirtæki og stofnanir þurfa að hafa margbreytilegt fólk að störfum og ég held að það skipti máli.“

Það er stundum talað um glerþakið. Heldurðu að það hafi komið einhver sprunga í það eða kvarnast úr því með þinni ráðningu? 

„Já, ég held það sé óhætt að segja að það sé komin stór sprunga í glerþakið þegar kona er skipuð í æðstu stjórn Seðlabankans í fyrsta sinn í tæplega sextíu ára sögu bankans,“ segir Rannveig. 

Metin hæfust umsækjenda

Rannveig er skipuð til fimm ára.  Skipuð var sérstök matsnefnd til að meta hæfni umsækjenda eins og lög um Seðlabanka Íslands gera ráð fyrir. Hún var valin úr hópi 14 umsækjenda, tveir drógu að vísu umsókn sína til baka og einn taldist ekki uppfylla hæfnisskilyrði laga um Seðlabanka Íslands. Rannveig var eini umsækjandinn sem metinn var mjög vel hæfur í þeim fjórum flokkum sem horft var til við ráðninguna. Hún uppfyllti skilyrði um menntun, starfsferil, stjórnunarhæfileika og reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum.

Nánar á ruv.is


http://www.ruv.is/frett/aetlar-ad-hlusta-a-verkalydshreyfinguna