Rakel: „blessuð sé minning mannsins, megi fráfall hans verða öðrum víti til varnar“

„Við fjölskyldan, ásamt góðum vinum, erum stödd í Steingrímsstöð við Úlfljótsvatn þessa helgina og vorum ekki bara vitni að því þegar mennirnir tveir voru í lífsháska - heldur vorum það við sem hringdum í 112 og stóðum á bakkanum.“

Þetta segir Rakel Magnúsdóttir. Þrjár fjölskyldur urðu vitni að því þegar bandarískur ferðamaður lét lífið og þá var íslenskur leiðsögumaður hætt kominn. Fjölskyldurnar telja að hefði ferðamaðurinn verið í björgunarvesti væri hann enn á lífi í dag. Forsvarsmenn fyrirtækisins sem selja veiðileyfi í vatnið segja í samtali við Hringbraut að þeir ætli að endurskoða verklag sitt.

Það var um klukkan hálf sex í gær sem lögreglu barst tilkynning um að veiðimaður hefði fallið í Úlfljótsvatn, við hólma neðan Steingrímsstöðvar. Fjölmennt björgunarlið var sent á vettvang. Þá fór þyrla Landhelgisgæslunnar í loftið. Maðurinn var bandarískur og á áttræðisaldri. Hann hafði misst fótanna í vatninu en svæðið er afar straumþungt. Ís­lensk­ur leiðsögumaður var við veiðar ásamt þremur er­lendum ferðamönnum. Þeir stóðu í lygnu stæði en fóru aðeins út í strauminn og þá missti hinn bandaríski ferðamaður fótanna. Leiðsögumaðurinn reyndi þá að bjarga manninum og var sjálfur hætt kominn og á endanum var leiðsögumanninum bjargað af veiðimönnum á svæðinu en ferðamaðurinn lét lífið. Vatnið er afar kalt og sagði einn veiðimaður í samtali við Morgunblaðið í gær að vatnið „kláraði menn á fimm mínútum.“

Á svæðinu voru nokkrar fjölskyldur og tóku fljótlega eftir að ekki væri allt með felldu. Tveir menn, Sigurður Einar Guðjónsson, Sveinn Líndal Jóhannsson ásamt Gísla Runólfssyni ýttu þungum árabát úr vör fyrir neðan bústaðinn sem fjölskyldurnar dvöldu í. Til að róa bátnum höfðu þeir aðeins plastárar sem ætlaðar eru í gúmmíbát ætlaðan börnum.

Rakel Magnúsdóttir lýsir því sem gerðist næst á þessa leið: „Þessi lífsreynsla, að horfa á eftir þeim. Óvissan og að sjá þá ná að draga manninn upp úr vatninu og hefja svo endurlífgun er eitthvað sem mun aldrei gleymast. Allt sem á eftir gerðist, biðin, sjúkrabílar og þyrlan á blettinum og vonin um að maðurinn myndi bjargast er eitthvað sem við og börnin okkar horfðum upp á. Því miður fór sem fór. Við gerðum okkar besta til að bjarga, það var því miður ekki nóg.“

Rakel segir að Einar og Sveinn hafi lagt sjálfa sig í hættu með því að róa á illa útbúnum bát, draga manninn upp í bátinn og hefja endurlífgun.

„Bara það eitt er magnað afrek,“ segir Rakel.

Fish Partners svara

Hringbraut ræddi við Gunnar Örn Petersen sem er starfsmaður Fish Partners. Fish Partners  selur veiðileyfi fyrir þetta svæði og keyptu hinir erlendu ferðamenn leyfi til að stunda veiðar í Úlfljótsvatni hjá fyrirtækinu. Aðspurður á ábyrgð hverra það væri að koma því til veiðimanna að einstök vötn geti verið varasöm, kvaðst Gunnar Örn ekki gera sér grein fyrir hvar sú ábyrgð lægi að fullu. Þá taldi hann sig ekki geta svarað hvort að fyrirtækið ætti að upplýsa veiðimenn um að straumþungt gæti verið á svæðinu eða hvort það væri í verkahring í annarra.

Mun Fish Partner í framtíðinni láta veiðimenn vita af því að svæðið getur verið lífshættulegt?

„Já, það er í skoðun hjá okkur og við munum bregðast við.“

Verður þeim tilmælum beint til veiðimanna að vera í björgunarvestum?

„Já, við stefnum að því. Við erum að skoða hvernig er best að bregðast við og við munum í framhaldinu beina þeim tilmælum til veiðimanna að vera í vestum og láta veiðimenn vita að það þurfi að fara um svæðið með gát.“

Björgunarhringir ekki nóg

Rakel segir að eftir að þyrlan hafði flogið á brott með ferðamanninn hafði aðeins liðið nokkrar klukkustundir þar til aðrir veiðimenn hafi verið komnir á sama svæði, aðeins klæddir í vöðlur en engin björgunarvesti. Hún segir: „Þetta er ekki flókið. Björgunarvesti hefði mögulega bjargað þessum manni frá drukknun og hreint ótrúlegt að það sé ekki skylda að vera í slíkum búnaði við veiðar.“

Þá segir Rakel að lokum:

„Björgunarhringur er ekki nóg, veiðimenn eiga að gæta fyllstu varúðar og vera rétt búnir. Blessuð sè minning mannsins, megi fráfall hans verða öðrum víti til varnar.“