Rakel ákærð: „ég var búin að opna mína eigin verslun, en síðan missti ég tökin“

Rakel Ólafsdóttir er 28 ára kona sem hefur verið ákærð fyrir sölu og vörslu á lyfseðilsskyldum lyfjum. Það eru yfirvöld í Massachussets sem kærðu Rakel eftir tveggja og hálfs mánaðar rannsókn. Rakel er búsett í Middleborough sem er 25 þúsund manna bær í Massachussetts fylki, í klukkutíma akstursfjarlægð frá Boston. DV greinir frá þessu í tekjublaðinu.

Þar kemur fram að Rakel sé eigandi sólbaðsstofunnar Rakel’s Tanning Salon and Beautiqe sem er í miðbæ Middleborough. Stofunni var lokað í apríl en opnuð aftur í maí. Í frétt DV segir að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru nokkur tilfelli þar sem ungmenni tóku of stóran skammt af lyfjum og enduðu sum með dauðsfalli. Fjölskyldumeðlimir grunuðu Rakel að hafa selt lyf og tilktynntu hana til yfirvalda og hófst þá rannsókn lögreglu. Var gerð húsleit hjá Rakel og fannst 1,4 milljónir í reiðufé og skammtar af morfínskyldum lyfjum. Var Rakel handtekin eftir húsleitina og hún ákærð í júní síðastliðnum.

Rakel tjáir sig við DV og kveðst saklaus. Kennir hún öðrum tveimur stúlkum um að hafa verið tekin höndum.

 „Ég er fíkill í bata og mér var búið að ganga mjög vel. Ég var búin að opna mína eigin verslun, en síðan missti ég tökin í rúman mánuð,“ segir Rakel og bætir við að hún búist við að fá skilorðsbundinn dóm: „Ég hef ekki verið að selja neitt og ég er ekki ábyrg fyrir neinu af því sem þau segja [...] Þetta er mestallt orð á móti orði.“

Nánar er fjallað um málið í DV.