Íbúðamarkaðurinn á æ færri hendur

Unga kynslóðin sem er að koma sér þaki yfir höfuðið á tveimur fyrstu áratugum nýrrar aldar er líklega sú fyrsta í marga mannsaldra sem býr við verri aðstæður en kynslóðin á undan. 

Þetta var meðal umræðuefna í Ritstjóraþætti vikunnar þar sem Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Vikunnar settust á rökstóla með Sigmundi Erni, en Stundin birti í nýjasta tölublaði sínu átta síðna úttekt á stöðu unga fólksins í landinu sem flýr klærnar á leigufélögunum sem í gróðaskyni kaupa nú upp heilu og hálfu íbúahverfin og tromma þar upp verðin - og fyrir vikið neyðist það til að flytja aftur heim til mömmu og pabba, eða jafn vel ömmu og afa. Staðan er nefnilega þessi; íbúðamarkaðurinn er einfaldlega að komast í hendur æ færri aðila.

Þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar, svo og klippur úr honum, en meðal annarra umræðuefna í honum eru falskar fréttir sem virðast flæða um allt fjölmiðlakerfið, ákveðnum stjórnmálamönnum til skemmtunar og yndis, enda komast þeir til valda í krafti blaðurs og lygi og láta hefðbundna fréttamiðla heyra það og ráðast jafnvel á þá með stóryrðum fyrir það eitt vinna vinnuna sína, téðum pólitíkusum á stundum í óhag.

Loks er þeirri stóru spurningu svarað af hverju nýja ríkisstjórnin á Íslandi er jafn óvinsæl og hver könnunin af annarri staðfestir - og er nú svo komið, samkvæmt þeirri nýjustu, að einungis 6 prósent þeirra sem studdu Bjarta framtíð í þingkosningunum síðasta haust styðja ríkisstjórnina. Þá er fólkið innan Viðreeisnar líka afskaplega efins með ríkjandi stjórnvöld, meira en helmingur kjósenda þess nýja flokks styður ekki stjórnina og jafnvel einn af hverjum þremur sjálfstæðismönnum hugnast ekki nýja stjórnin sem leidd er af formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni.

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00.