Ræður miðflokksins notaðar sem svefnlyf og til að minnka straum hælisleitenda til íslands

Þingmenn Miðflokksins héldu uppteknum hætti í gær og í nótt. Stóðu þeir fyrir málþófi fjórðu nóttina í röð er þeir ræddu þriðja orkupakkann langt fram á morgun. Þeir hafa nú talað í rúmar 80 klukkustundir um orkupakka þrjú. Skiptar skoðanir eru um málþóf Miðflokksins, sumum þykir flokkurinn vera sómi Íslands, sverð þess og skjöldur líkt og verkalýðsforinginn Ragnar Þór Ingólfsson sem hefur þakkað Sigmundi og hans mönnum fyrir að berjast á móti innleiðingu orkupakkans. Aðrir hafa gagnrýnt Miðflokkinn og með málþófi sé verið að tefja fyrir að mikilvægari mál fái meðferð á þinginu.

Óttar Guðmundsson geðlæknir fjallar um Miðflokkinn í pistli í Fréttablaðinu í dag. Á Hringbraut látum við lesendum eftir að dæma hvað Óttari þykir um ræður og framgöngu Miðflokksins. Þar segir Óttar að Íslendingar hafi ekki átt mikla ræðuskörunga síðan að Jón Steingrímsson stöðvaði Skaftárelda með orðkynngi sinni. Óttar segir:

„Nú berast hins vegar fréttir frá Alþingi um óvenju snjalla ræðumennsku. Þingmenn Miðflokksins hafa á undanförnum sólarhringum talað þindarlaust og oft blaðlaust á Alþingi um þriðja orkupakkann. Þessir menn höfðu áður í hinu svokallaða Klausturmáli vakið athygli fyrir kjarnyrta og snjalla málnotkun. Á löngum næturfundum Alþingis virðast þeir innblásnir af heilögum anda eldklerksins.“

Óttar segir að þar sem ræðurnar séu haldnar fyrir galtómum þingsal séu margir sem missi af snilldinni. Óttar bætir við:

„Það er krafa allra landsmanna að ræðurnar verði gefnar út á prenti og sem hljóðbækur sem námsefni í skólum. Æska landsins þarf að læra að koma fyrir sig orði og nota íslenskuna eins og hún á skilið. Brottfallið úr skólunum mundi kannski aukast en það skiptir engu í þessu samhengi. Með hljóðbókunum mætti bæta svefn landsmanna og minnka sívaxandi svefnlyfjanotkun,“ segir Óttar og bætir við að lokum:

„Þessar bækur mætti nota í íslenskukennslu fyrir útlendinga til að minnka straum hælisleitenda til landsins. Hljóðbækurnar eru tilvalin tækifærisgjöf til Íslendinga í útlöndum. Þessi sögulegu menningarverðmæti mega ekki glatast.“