Ráðstöfunartekjur aukist meira en skattbyrði

Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur hjá SA:

Ráðstöfunartekjur aukist meira en skattbyrði

Ásdís Kristjánsdóttir
Ásdís Kristjánsdóttir

Á síðustu tíu árum hafa ráðstöfunartekjur allra aukist á föstu verðlagi eftir skatt- og bótagreiðslur og hlutfallslega meira hjá tekjulægstu hópunum. Þetta er meðal þess fram í erindi Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs SA, á árlegum Skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins. Erindið má sjá á vef SA hér  sem nefnist Úr vasa heimila.

Skattbyrði lægstu launa hefur aukist á undanförnum árum en þó hafa miklar launahækkanir orðið á sama tíma sem hafa aukið ráðstöfunartekjurnar. Útborguð lágmarkslaun eftir skatt og bótagreiðslur hafa t.d. aukist 17 prósent umfram aukna skattbyrði frá árinu 2008, segir Ásdís sem segir að það gefi villandi mynd að horfa bara á hvernig skattbyrði hefur þróast.

Tekjuþróun og þróun skattbyrði verði að skoða saman til að fá rétta mynd af því hvort heimilin séu betur sett en áður.

Í erindinu kom líka fram að á undanförnum árum hafi aukin áhersla verið á að hækka lægstu laun sérstaklega og því hafi skattbyrði þeirra aukist. Varðandi tillögur um skattleysi lágmarkslauna þá yrði slík dýrt fyrir ríkissjóð, kosta 149 milljarða króna eða sem nemur rúmlega 80 prósent af heildartekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga. Ásdís benti á að þá myndi skattbyrði annarra aukast verulega.

Þá kom framað tuttugu prósent þeirra sem hafa hæstu tekjurnar á Íslandi greiða í dag til ríkisins rúmlega 70 prósent af hreinum heildargreiðslum tekjuskatts einstaklinga að teknu tilliti til vaxta og barnabóta. Lægstu fimm tekjutíundir eða helmingur framteljenda stendur undir tæplega einu prósenti af greiddum tekjuskatti til ríkisins og 30 prósent þeirra sem lægstar hafa tekjurnar fá  meira greitt úr ríkissjóði í formi bóta en sem nemur staðgreiðslu tekna.

 

Nýjast