Raðklúður dómstóla - „þeir féllu í þá gryfju að finna handhafa sannleikans“

„Grunsemdir um að ákveðið hafi verið að klína glæpum á fólk, sem lá vel við höggi og einstaka stjórnmálamenn og háværar raddir í samfélaginu völdu til að hengja í hæsta gálga hafa nú fengið byr undir báða vængi svo ekki sé fastar að orði kveðið. Úrskurðir Mannréttindadómstóls Evrópu endurspegla raðklúður, sem styður tilfinninguna um að dómararnir í landinu hafi flotið með, fundið til nýrrar ábyrgðarkenndar og reynt að „standa í stykkinu“ við að gera upp hrunið.“

Þetta segir Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins í leiðara í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar fjallar Kristín um nýfallin dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem sýknaði Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi bankastjóra MP banka.

Styrmir var dæmdur í eins árs fangelsi árið 2013 fyrir aðkomu í svo­kölluðu Exeter-máli. Niðurstaða dómara MDE var einróma og stjórnvöld hér á landi sögð hafa brotið gegn Styrmi með því að líta framhjá lögum Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar. Leiðarahöfundar Fréttablaðsins hafa eftir hrun stundum verið gagnrýndir og sakaðir um að styðja útrásarvíkinga þegar þeir hafa bent á að mögulega væru dómstólar að fara offorsi. Þá segir Kristín segir að Fréttablaðið hafi í leiðurum oft talað fyrir daufum eyrum „í umfjöllun um skelfilega bresti í réttarkerfinu sem birtust eftir hrun, ekki síst með stofnun embættis sérstaks saksóknara.“

Bætir Kristín við að Mannréttindadómstóllinn staðfesti að góðar reglur hafi verið látnar víkja æ ofan í æ. Kristín segir:

„Þó að Mannréttindadómstóllinn taki ekki endilega á efnisatriðum mála og skeri ekki úr um sekt eða sýknu, gefa umvandanir hans tilefni til að draga sorglegar niðurstöður margra mála í efa. Ábyrgðin er mikil því hverjum einasta dómi fylgir harmleikur, sem snertir miklu fleiri en þá dæmdu.“

Kristín segir að Fréttablaðið geti verið stolt fyrir að benda á hugsanlega galla í málsmeðferðum hér landi og að líta á mál frá fleiri en einni hlið. Kristín bætir við:

„ ... og varað við hugsanlegu offorsi meðan mest gekk á í réttarsölunum. Það var ekki alltaf létt verk.“

Þá gagnrýnir Kristín aðra fjölmiðla og segir að flestir þeirra hafi varið kerfið, sérstakan saksóknara og dómstólana. Kristín segir að lokum:

„Flestir fjölmiðlar landsins stóðu þéttan vörð um kerfið, saksóknarann og dómstólana. Einmitt kerfið sem þeim ber að vakta. Þeir féllu í þá gryfju að finna handhafa sannleikans, sem yfirleitt fyrirfinnst ekki – ekki einu sinni hjá þeim sem fara með opinbert vald og hafa reikult almenningsálitið með sér.“