Ráðist á jónatan þegar hann var á leið í jarðarför: neyddist til að mæta í blóðugri skyrtu og með servéttu í nefinu til að kveðja föður sinn

Jónatan Sævarsson var á leið í útför föður síns í gær þegar ráðist var á hann. Maðurinn taldi að Jónatan hefði svínað fyrir hann í umferðinni. Á vef Fréttablaðsins er greint frá því að maðurinn hafi kýlt Jónatan af miklu afli í andlitið. Við höggið féll Jónatan í götuna.

Hólmfríður Bjarnadóttir, móðir Jónatans, tjáir sig við Fréttablaðið nú í kvöld. Hún segir að Jónatan sé búsettur í Noregi og hann hafi tekið flug heim í morgun. Kom hann til landsins til þess að vera viðstaddur útförina. Hólmfríður segir:

 „Þetta var á milli tólf og eitt. Kistulagningin er rétt fyrir tólf og hann fer með strákinn sinn smávegis á rúntinn.“

Undanfari árásarinnar var með þeim hætti að Jónatan var að beygja út úr hringtorgi þegar illur ökumaður taldi að Jónatan hefði beygt fyrir hann. Lá viðkomandi á flautunni. Jónatan stoppaði bílinn og segir Hólmfríður að þá hafi maðurinn ætt út úr bílnum, rifið upp hurðina og slegið Jónatan af afli. Sonur Jónatans var í bílnum og sat við hlið föður síns þegar árásin átti sér stað en drengurinn er aðeins á fermingaraldri.

Það var lán í óláni að árásin átti sér stað fyrir utan lögreglustöðina í Hafnarfirði. Lögregluþjónar þustu út og stöðvuðu ofbeldismanninn. Var maðurinn færður í járn en sleppt að lokinni skýrslutöku. Hólmfríður segir að Jónatan gæti mögulega verið nefbrotinn:

„Hann kemur svo í útförina rétt áður en hún á að hefjast með fullt af servéttum í nefinu og blóð á skyrtunni og snarast þarna inn á einhverja snyrtingu og þrífur sig aðeins.“

Nánar er fjallað um málið á vef Fréttablaðsins.