Ráðherrakapall Sjálfstæðisflokksins

Áslaug Arna eða tilfærslur

Ráðherrakapall Sjálfstæðisflokksins

Tilkynnt verður um nýja skipan hjá Sjálfstæðisflokknum í dag eftir afsögn Sigríðar Andersen.

Helst er nú rætt um tvo möguleika. Annar er sá að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir taki við dómsmálaráðuneytinu og annað breytist ekki. Þetta þykir afar veikur kostur.

Hinn möguleikinn er sá að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir taki við dómsmálaráðuneytinu og haldi hluta af núverandi ráðuneyti, t.d. ferðamálunum. En þá kæmi nýr ráðherra í iðnaðarráðuneytið og tæki við málefnum iðnaðar, orku og nýsköpunar. Ef sú leið verður valin þarf að gera breytingar á skipan stjórnarráðsins sem gæti tekið einhvern tíma. Bjarni Benediktsson yrði þá dómsmálaráðherra á meðan það gengi í gegn.

Margir eru kallaðir til að taka við iðnaðarráðuneytinu ef til þessa kæmi. Páll Magnússon mun sækja það fast en hann nýtur ekki stuðnings í flokksforystunni. Haraldur Benediktsson hefur einnig verið nefndur en ekki gengi að tveir ráðherrar kæmu frá flokknum úr minnsta kjördæmi landsins, Norð-vestur. Jón Gunnarsson sækist einnig eftir þessu. Hann hefur látið iðnaðar-og orkumál mjög til sín taka og er orðinn einn reyndasti þingmaður flokksins. Margir hallast að því að Jón Gunnarsson verði fyrir valinu.

 

Nýjast