Ráðherra beitir sér í kjaramálum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í 21:

Ráðherra beitir sér í kjaramálum

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir

„Ég er mjög ánægð með úttekt Landlæknisembættisins”, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í þættinum 21 þar sem hún ræðir við Lindu Blöndal  um brýn verkefni í heilbrigðismálum.

Úttektin sýndi fram á alvarlegan vanda bráðamóttökunnar vegna þess að fólk kemst ekki inn á spítalann nema eftir bið sem áður hefur ekki verið lengri, þar sem spítalinn er yfirfullur og yfir 100 manns liggja þar inni sem ekki er hægt að útskrifa þar sem hjúkrunarrými vantar fyrir aldraða. Þetta kemur illa niður á bráðamóttökunni þar sem fólk liggur inni allt of lengi.

„Það eru 14 verkefni í gangi um allt land um uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það eru 200 rými á næstu tveimur árum sem munu verða til og komast í gagnið. Við erum að bæta 130 milljónum í heimahjúkrun á Höfuðborgarsvæðinu”, segir Svandís og segir að sérstök ráðherranefnd hafi verið sett upp sérstaklega til að  skoða mönnun í hjúkrun.

Hjúkrunarfræðinga vantar einnig á spítalann. Loka hefur þurft legurýmum þar sem þá vantar. Þeir hafa sótt í önnur störf og mikið í flugþjónastörf.

“Það er gömul saga og ný að þegar það er þensla í samfélaginu að þá fer fólk úr opinberum störfum”, segir Svandís sem hyggst láta til sín taka í komandi kjarasamningum þessara stétta.

“Laga þarf kjör og starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga eftir því sem margoft hefur verið bent á hjá talsmönnum stéttarinnar”.  Ráðherranefnd um kjör þessa hóps hefur lagt til umbætur segir ráðherra sem snúa ekki endilega að launum heldur að starfskjörum, vöktum hjúkrunarhópa og öðru.

Svandís segist ekki munu sitja hjá: “Ég mun skrifa bréf til allra heilbrigðisstofnana að öllum líkindum strax í næstu viku, hitti forstjórana þá um þessar áherslur sem við höfum verið að safna saman og verðmeta þær”.

Er þetta þitt innlegg í kjaraviðræður þessa hópa? “Já, algerlega”. Muntu mælast til starfs- og kjarabóta? “Ég tek þetta mjög alvarlega og það er þannig að þó samningsumboðið sé hjá fjármálaráðherra og samninganefnd ríkisins þá er það þannig að alvarlegar kjaradeilur á heilbrigðissviði snerta öryggi sjúklinga”, segir Svandís.  

Nýjast