Ráðherra misnotar valdið

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður gagnrýnir Björt Ólafsdóttur, umhverfisráðherra og segir hana misnota vald sitt. Ráherra hefur sagt vilja láta loka kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík núna, eftir að eldur kom upp þar í annað sinn en miklir erfiðleikar hafa undanfarið verið í kringum starfsemina sem fór aldrei á fullt skrið vegna mengunarmála.

Kristinn skrifar á síðuna sína kristinn.is að afskipti Umhverfisráðherra af störfum Umhverfisstofnunar varðandi verksmiðjuna í Helguvík séu þess eðlis að ráðherrann er vanhæfur í starfi. Með þessu skilji ráðherra ekki á milli pólitískra skoðana sinna og formlegrar stöðu sinnar sem yfirmaður forstjóra Umhverfisstofnunar. Þá er rökstuðningur ráðherrans fyrir rekstrarstöðvun vafasamur í meira lagi.  Ráðherra er yfirmaður Umhverfisstofnunar sem gefur út rekstrarleyfið, Kristinn segir Björt nú beita stjórnendum stofnunarinnar óeðlilegum þrýstingi en þar séu stjórnsýslulegar ákvarðandi teknar, ekki pólitískar.