Ráðamenn Filippseyja halda áfram að gagnrýna Ísland harðlega

Ráðamenn Filippseyja halda áfram að gagnrýna Ísland harðlega

Ráðamenn Filippseyja hafa haldið áfram að gagnrýna Ísland eftir að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun Íslands um að staða mannréttinda í Filippseyjum verði rannsökuð í samstarfi við stjórnvöld. Teodoro Locsin yngri, utanríkisráðherra Filippseyja, velti því upp á Twitter í nótt hvort landið ætti ekki að feta í fótspor Bandaríkjanna og segja sig úr ráðinu. Ísland tók sæti Bandaríkjanna í ráðinu í fyrra.

RÚV.is greinir frá.

Með samþykkt ályktunarinnar lýsti mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvatti stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku. Stríð Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, gegn fíkniefnum er talið hafa kostað 20 þúsund manns lífið.

Í ályktuninni er einnig farið fram á að stjórnvöld á Filippseyjum sýni skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem og stofnunum mannréttindaráðsins, fullan samstarfsvilja. Loks er mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna falið að standa fyrir skýrslugerð um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum og leggja fyrir mannréttindaráðið að ári liðnu.

Eins og greint hefur verið frá hefur Locsin sagt Íslendinga vera handbendi eiturlyfjabaróna og Duterte sagt Íslendinga borða of mikinn ís, hér væri of mikið af ís og að það væri vandamál að hér væri enginn munur á nótt og degi.

Þá hefur Locsin hafnað því að stjórnvöld á Filippseyjum veiti mannréttindaráðinu aðstoð. Hann sagðist um helgina lengi hafa talað fyrir alþjóðlegu samstarfi í baráttunni gegn fíkniefnum. Slík aðstoð gæti ekki að komið frá þjóðum eins og Íslandi, „sem baða sig ekki einu sinni á dag og eru líklega á launaskrá glæpasamtaka.“

Auk þess hefur Imee Marcos, þingkona á Filippseyjum, hvatt ríkisstjórnina til þess að slíta öll stjórnmálatengsl við Ísland. Hún sakar löndin sem samþykktu ályktunina um hræsni, þar sem fóstureyðingar séu leyfðar hér á landi. Ísland sé eitt þeirra landa sem leyfi „morð á varnarlausum, ófæddum börnum.“

Marcos þessi er dóttir einræðishjónanna Ferdinands og Imeldu Marcos, sem stjórnuðu Filippseyjum með harðræði á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Fóru þau fram með drápum, mannréttindabrotum og stórfelldum stuldi úr ríkissjóði landsins.

Nýjast