Procar fær að starfa áfram þrátt fyrir að breyta kílómetramælum á minnst 110 bílum – margþátta svik

Samgöngustofa ætlar ekki að svipta bílaleiguna Procar starfsleyfi. Tillögur fyrirtækisins að úrbótum voru taldar fullnægjandi. Lögreglurannsókn á málinu er komin til héraðssaksóknara vegna umfangs. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Í fréttaskýringaþættinum Kveik var upplýst um umfangsmikið svindl Procar en þátturinn fór í loftið í febrúar.  Í því stórtæka svindli átti bílaleigan Procar við kílómetramæla fjölda bíla sinna svo þeir virtust minna eknir en þeir voru í raun þegar þeir fóru í sölu.

Málið er á borði héraðssaksóknara vegna umfangs. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB sagði á sínum tíma í samtali við Hringbraut þegar málið kom upp að málið væri víðfeðmt.

„Það er mjög stórt, þeir eru búnir að gangast við því sjálfir að hafa að minnsta kosti átt við 110 bíla. Síðan er þessi óvissa, hversu margir bílar eru hugsanlega þarna til viðbótar. Þessir [110 bílar] voru seldir og sumir voru með einhverja tugi þúsund kílómetra minni akstur á mæli þegar þeir voru seldir heldur en raunverulega var búið að aka þeim.“

Þá sagði Runólfur einnig að þessi svik væru margþátta. „Þegar það er verið að standa í svona, þá eru þetta margþátta svik. Það er verið að fá hærra endursöluverð fyrir bifreiðina, það er ákveðinn hvati ef þú ferð á markað og ætlar að kíkja eftir notuðum bílum, þá er einn helsti söluhvatinn: „Hvað er bíllinn ekinn?“ Þá bætti Runólfur við:

„Það er ljóst að þetta er auðgunarbrot, þetta er skjalafals, þetta er bara hegningarlagabrot sem hefur verið framið þarna innan veggja þessa fyrirtækis. Einhvern veginn er enginn að gera neitt. Það er eins og allir séu bara að bíða eftir að rykið setjist og þá verði þetta aftur allt í lagi. Þetta er pínulítið eins og strúturinn að stinga höfðinu í sandinn, ég hef það á tilfinningunni.“