Pólitískt átakaleysi í borginni

Samfylkingin virðist sigla lygnan sjó til sigurs í Reykjavík, enda væntanlega sá flokkur sem hagnast mest á því pólitíska átakaleysi sem einkennir kosningabaráttuna nokkrum dögum fyrir kjördag.

Þetta er tónninn í Ritstjórunum þessa vikuna, en þar segist Karl Garðarsson, annar tveggja gesta Sigmundar Ernis varla muna eftir annarri eins deyfð í aðdraganda kosninga; hann hafi verið í Kringlunni um helgina og séð eitt framboð kynna þar málefni sín, já eitt, helgina fyrir kjördag, en framboðin eru sem kunnugt er sextán að tölu. Ingimar Karl Helgason, sessunautur þeirra segist þó verða var við ágæta spretti á samfélagsmiðlunum þar sem aðalstuðið sé að finna, en vissulega sé málefnafátæktin slík að eftir henni sé tekið. Það sem litar þessa kosningabarátta, ef baráttu á að kalla, er svo líka það, að mati Karls að skítkastið er látið vera, menn séu greinilega búnir að átta sig á því að níðið hitti þá helst sjálfa fyrir.

Önnur umræðuefni þáttarins eru innansveitarkrónikan í Árneshreppi á Ströndum norður og yfirgangur ríkra verktaka á brothættum hreppum ekki síður en ægivald efnaðra umhverfisverndarsinna á litlum samfélögum - og svo er rætt um yfirvofandi efnahagssamdrátt og spurninguna hvort Íslendingar eigi að sniðganga evrópsku söngvakeppnina í Jerúsalem að ári.

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld, en eru endursýndir í dag og einnig aðgengilegir á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.