VIÐREISN Á RÉTTUM TÍMA

VIÐREISN Á RÉTTUM TÍMA

Stofnfundur Viðreisnar verður haldinn í Hörpu þriðjudaginn 24. mai kl 17. Óhætt er að segja að stofnfundur flokksins sé haldinn á hárréttum tíma þegar mikil ólga er í stjórnmálunum, fylgið á fleygiferð og alger óvissa ríkjandi um afdrif flokka og hreyfinga.

Viðreisn hefur verið starfandi sem samtök eða félagsskapur í rúm 2 ár. Beðið hefur verið með formlega flokksstofnun þar sem ekki hefur þótt ástæða til að fara af stað með það fyrr en ljóst væri hvenær kæmi til kosninga. Kosið verður í lok október og ljóst er að stjórnarflokkarnir geta ekki vikið sér undan því þó svo margir þingmenn stjórnarliðsins séu haustkosningum andsnúnir. Margir þeirra vilja bíða til næsta vors. Þeim er mörgum ljóst að þeir munu ekki eiga afturkvæmt til þings og vilja teygja á þingferli sínum sem mest. Það er einfaldlega ekki lengur í boði. Kosningar fara fram í lok október. Sjálfstæðismenn hafa ákveðið prófkjör í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi um mánaðarmótin ágúst og september þannig að ekki verður aftur snúið.

Viðreisn hefur haldið marga þjóðmálafundi sem hafa heppnast vel, m.a. um sjávarútvegskerfið, landbúnaðarmál, gjaldmiðlamál, heilbrigðismál og menntakerfið enda eru þetta málaflokkar sem flokkurinn hyggst láta mjög til sín taka, auk alþjóðamála, þar á meðal afstöðu til ESB, og síðast en ekki síst jöfnun kosningaréttar. Flokkurinn er ekki sáttur við að sumir Íslendingar hafi tvöfaldan kosningarétt á við fjöldann sem býr í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu. Fjórflokkurinn hefur látið þennan ójöfnuð viðgangast og hefur ekki haft uppi neina tilburði til að jafna kosningarétt. Jöfnun kosningaréttar er mannréttindamál sem Viðreisn ætlar að beita sér fyrir af fullum krafti.

Ég hef fylgst með starfi Viðreisnar í gegnum tengdadóttur mína sem hefur verið virk í stefnumótunarvinnu sem 150 manns hafa komið að. Langt er síðan ákveðið var að vinna undirbúningsvinnu fyrir næstu kosningar í  kyrrþey og koma svo fram þegar kosningar væru í sjónmáli. Þessi áform ganga vel eftir. Á stofnfundinum verður tekið eitt skref fram á við og svo mun flokkurinn koma inn í snarpa og stutta kosningabaráttu næsta haust af miklum krafti með vandaða stefnuskrá og vel mönnuð framboð í öllum kjördæmum.

Nú eru ríkjandi kjöraðstæður fyrir Viðreisn,  borgaralegan flokk sem nær frá miðju stjórnmálanna yfir til hægri. Miðjuflokkarnir eru allir í bullandi vandræðum, nánast tilvistarkreppu. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun benti allt til þess að Björt framtíð kæmi engum manni á þing, Framsókn fjórum og Samfylking 5 þingmönnum. Þessir þrír miðjuflokkar voru samtals með 17% fylgi miðað við umrædda könnun en fengu alls 46% í Alþingiskosningunum vorið 2013. Það hefur því orðið hrun hjá hefðbundnum miðjuflokkum og fylgi þeirra hefur væntanlega færst yfir til Pírata sem hafa verið að mælast með fylgi í skoðanakönnunum á milli 30% og 40% í heilt ár. Nú er að verða viðsnúningur á stuðningi við Pírata því fylgi þeirra er komið niður í 25% og er greinilega á niðurleið.

Viðreisn hefur alla burði til að fá stuðning sem miðju og hægriflokkar hafa verið að fá. Þá er rétt að hafa í huga að vaxandi fjöldi kjósenda hefur ákveðið að snúa baki við Fjórflokknum vegna verka þeirra í síðustu tveimur ríkisstjórnum. Ætla má að margir þeirra taki Viðreisn fagnandi, flokki með ferskar áherslur og engan vondan farangur úr fortíðinni.

Viðreisn er með hreint borð. Ekkert Tortólafólk verður þar í framboði, engin Panamaskjöl sem þarf að svara fyrir, engin kosningasvik sem þarf að útskýra. Í boði verður skýr framtíðarsýn sem mun einkennast af sanngjarnara samfélagi og heiðarleika þar sem spillingu og leynimakki verður sagt stríð á hendur.

Í því pólistíska upplausnarástandi sem ríkir nú á Íslandi gæti Viðreisn orðið haldreipi mikils fjölda kjósenda.

 

 

Nýjast