HVER Á HAGVÖXTINN?

HVER Á HAGVÖXTINN?

Þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna tala nú eins og hagvöxturinn í landinu sé þeim að þakka. Viðbúið er að þetta muni heyrast jafnt og þétt fram yfir kosningar. Ríkisstjórnarflokkarnir munu reyna að þakka sér það sem snúist hefur til betri vegar í atvinnulífi landsmanna og það þó batinn sé til kominn án atbeina núverandi eða fyrrverandi ríkisstjórnar.

Alþekkt er frá fyrri árum að kosningar hafi snúist um tímabundinn meðbyr eða mótbyr í efnahagsmálum sem varð án þess sitjandi ríkisstjórn hefði mikið um það að segja. Erfitt er að kenna ríkisstjórnum um aflabrest eða verðfall á erlendum mörkuðum og að sama skapi er ósanngjarnt að þakka þeim góðæri á erlendum mörkuðum fyrir sjávarafurðir eða álframleiðslu. Oft hefur verið tekist á um þetta.

Ég hallast að því að þjóðin sé betur upplýst núna og láti ekki blekkja sig með þeim áróðri að ríkisstjórnin hafi skapað þann góða hagvöxt sem nú er. Hagvöxturinn er allur sprottinn upp í atvinnulífinu. Nú sem stendur nær eingöngu frá þeim gríðarlega vexti sem verið hefur í ferðaþjónustu á síðustu 4 árum. Fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið hefur tvöfaldast á þessu tímabili, vöxturinn er 20% til 30% á ári og ekkert lát virðist vera á honum. Ferðaþjónusta er nú orðinn stærsta gjaldeyrisöflunargrein þjóðarinnar, hefur algerlega slegið út hefðbundnar greinar eins og sjávarútveg og álframleiðslu hvað það varðar. Ferðaþjónustan mun skila meira en 400 milljörðum króna í gjaldeyristekjur á árinu 2016.

Atvinnuleysi er í lágmarki núna eftir erfiðan tíma á vinnumarkaði í kjölfar hrunsins. Ferðaþjónustan á stærstan þátt í að eyða atvinnuleysi. Byggingariðnaður kemur þar á eftir, ekki síst vegna mikilla byggingarframkvæmda í hótelum og öðru gistirými sem hefur komið fárfestingum á skrið að nýju. Vegna þess mikla gjaldeyrisinnstreymis sem vöxtur ferðaþjónustunnar síðustu árin veldur, er gengi krónunnar að styrkjast. Það veldur lægra innflutningsverðlagi sem kemur í veg fyrir verðbólgu þrátt fyrir mjög háa kjarasamninga í þjóðfélaginu. Því hefur kaupmáttur aukist. Af þessum ástæðum öllum er hagvöxtur mikill í landinu.

Hvorki núverandi né fyrrverandi ríkisstjórnir hafa komið þessari framvindu til leiðar. Ísland er í tísku meðal erlendra ferðamanna og atvinnugreinin hefur haft kjark til að fjárfesta nógu hratt til að geta annað þessari miklu eftirspurn. Erlendir ferðamenn hafa engan áhuga á því hvort ráðherrar á Íslandi heita Steingrímur J., Bjarni Ben, Sigurður Ingi eða Jóhanna Sigurðardóttir. Þeim gæti ekki verið meira sama.

En erlendir ferðamenn hafa áhuga á Íslandi og öflugt kynningarstarf greinarinnar sjálfrar hefur ráðið úrslitum um þann mikla áhuga sem er á landi og þjóð. Vandinn sem við er að etja vegna þessa mikla vaxtar er ekki síst sá að hið opinbera hefur ekki náð að fylgja vextinum eftir við uppbyggingu innviða eins og vegakerfið hringinn kringum landið og Keflavíkurflugvöllur eru dæmi um. Þá er aðstaða fyrir ferðamenn á helstu áfangastöðum ekki til sóma þó vonandi standi sitthvað þar til bóta á komandi sumri og næsta ári.

Í kosningum munu kjósendur ekki láta mata sig um of á hagtölum. Kjósendur vilja ræða um stjórnarskrá, þeir vilja ræða um heiðarleika stjórnmálamanna og siðferði þeirra, þeir vilja ræða um aukna sanngirni í samfélaginu, þeir vilja ræða um að ekki verði liðið áfram að sérhagsmunir sægreifa og bænda séu í fyrirrúmi á kostnað fjöldans, þeir vilja ræða um misskiptingu kosningaréttar eftir búsetu og þeir vilja ræða um kosningaloforð og efndir frá síðustu kosningum.

Ríkisstjórnin getur ekki slegið eign sinni á hagvöxtinn. Hann verður allur til í atvinnulífinu í góðu samstarfi atvinnurekenda og launþega. Hann verður ekki til innan veggja ráðuneyta og Alþingis.

Nýjast