Pence til íslands – logi vill svör um uppbyggingu á varnarsvæðinu og viðveru hermanna á því

Mike Pence, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, mun koma í op­in­bera heim­sókn til Íslands þann 3. septem­ber næstkomandi. Pence mun dvelja í einn dag hér á landi sem fulltrúi Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hvíta hússins mun Pence í heimsókninni leggja áherslu á land­fræðilegt mik­il­vægi Íslands á norður­skauts­svæðinu, aðgerðir NATO til að bregðast við auknum um­svif­um Rúss­lands, sem og tæki­færi Íslands og Bandaríkjanna til að auka sam­eig­in­leg viðskipta- og fjár­fest­inga­tæki­færi.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, bendir á í færslu á Facebook-síðu sinni að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi í viðtali við Morgunblaðið á dögunum sagt að tilefni heimsóknar Pence væri að ræða efnahags- og viðskiptamál. Guðlaugi hafi hins vegar í viðtalinu láðst að nefna ofangreint landfræðilegt mikilvægi landsins og aðgerðir NATO vegna aukinna umsvifa Rússlands.

Að Loga setur því nokkurn ugg. „Mörgum brá eðlilega í brún snemmsumars þegar ríkisstjórnin færði 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar í viðhald mannvirkja NATÓ á Keflavíkurflugvelli. Enn frekar þegar í ljós kom að umfang framkvæmda virðist margfalt það sem kynnt var.“

Hann veltir því fyrir sér af hverju ríkisstjórnin hafi ráðist í þetta stórar framkvæmdir og hvaða, ef einhver, áform séu um viðveru hermanna á varnarsvæðinu. „Þann 23. júlí óskaði ég eftir því að utanríkisráðherra eða a.m.k. fulltrúar utanríkisráðuneytisins komi á fund utanríkismálanefndar og geri betur grein fyrir þeirri uppbyggingu sem er nú fyrirhuguð á varnarsvæðinu í Keflavík. Ég bað einnig um að gerð verði betri grein fyrir hvaða áform eru um viðveru hermanna þar.“

„Mér hefur ekki borist svar en hef ítrekað beiðni mína og í leiðinni beðið um munnlega skýrslu vegna heimsóknar Pence til landsins,“ segir Logi að lokum.

Pence afar umdeildur

Heimsókn Pence til landsins hefur víða verið gagnrýnd, þar sem Repúblikaninn Pence er afar íhaldssamur og þröngsýnn. Á meðal þeirra sem gagnrýna heimsóknina er rithöfundurinn Snæbjörn Brynjarsson í pistli sem birtist á Stundinni á mánudag, þar sem hann lýsir því hvaða mann Pence hefur að geyma:

„Hann ásamt Donald Trump hefur rekið ómannúðlega stefnu við landamæri Bandaríkjanna sem snýst um að ræna börnum frá foreldrum og hefur jafnvel leitt til dauða ungabarna vegna næringarskorts. Hann hefur árum saman barist gegn jöfnum réttindum milli kynja og reynt að hindra samkynhneigð pör í að eiga hamingjusamt líf saman. Hann gerði það meðal annars refsivert fyrir samkynhneigð pör að sækja um hjónavottorð. Ekki nóg með að neita þeim um hjónaband, hann beinlínis vildi refsa þeim fyrir að óska eftir slíku, mikið ógeðfelldara verður það ekki.“

Snæbjörn bendir einnig á að Pence trúi ekki á loftslagsbreytingar, eina helstu ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir. 

Snæbjörn er líkt og Logi uggandi yfir aukinni hernaðaruppbyggingu hér á landi. Boð þessa manns er auðvitað liður í stefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að styrkja NATO samstarfið á tímum þar sem Bandaríkin verða sífellt herskárri, og stuðla að aukinni hernaðaruppbyggingu hérlendis. En Mike Pence á ekkert erindi hér sem heiðursgestur. Hann er rasisti, hann er hómófób, hann er ófriðarsinni, en að öðru leyti geri ég ráð fyrir að hann sé góð manneskja. Bara einstaklega ráðvillt manneskja sem ætti að vera talsvert lengra en einum hjartslætti frá yfirráðum yfir kjarnorkuvopnum, 300 milljón manna þjóð eða nokkurri valdastöðu yfirhöfuð,“ segir Snæbjörn.