Pawel gæti farið í borgarstjórn

Mikill hugur mun vera í Viðreisnarfólki að bjóða fram öflugan lista í Reykjavík og koma flokknum vel fyrir í borgarstjórninni en sveitarstjórnarkosningar fara fram í lok mai.

Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, hefur fengið mikla hvatningu til að bjóða sig fram til borgarstjórnar. Hans verður saknað á Alþingi því hann er frjálslyndur og frambærilegur stjórnmálamaður í alla staði. Hann er sagður vera stórvel gefinn en vaxandi eftirspurn virðist vera eftir slíku fólki í stjórnmálum á Íslandi, samanber val á Katrínu Jakobsdóttur í embætti forsætisráðherra. Langt er síðan þjóðin hefur haft gáfumanneskju í því starfi.

Hjá Viðreisn er mikill spenningur fyrir framboðum til borgarstjórnar. Starfandi hefur verið hópur sem vinnur að undirbúningi framboðsins, bæði hvað varðar val á fólki og mótun stefnu. Ýmsir hafa verið nefndir sem mögulegir frambjóðendur, einkum yngri konur og karlar á aldrinum 25 til 45 ára. Meðal þeirra sem nefndir hafa verið, auk Pawels, eru Gísli Marteinn Baldursson og einnig ungar og mjög vel þekktar konur.

Margir líta þannig á að Viðreisn, Flokkur fólksins og fleiri hafi dauðafæri til að ná góðum árangri í Reykjavík næsta vor. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki talinn líklegur til afreka. Leitað hefur verið með logandi ljósi að einhverjum til að leiða lista flokksins en enginn frambærilegur fengist til verksins. Helst er nú talað um að Eyþór Arnalds, stjórnarmaður í Morgunblaðiðu, verði látinn reyna en hann er ekki líklegur til að ná miklum árangri. Borgarfulltrúana Kjartan Magnússon og Áslaugu Friðriksdóttur langar einhver ósköp til að leiða lista flokksins en það er talin algerlega vonlaus uppstilling. Sama gildir um Hildi Sverrisdóttur.

Líklegast er að flokkseigendur á Morgunblaðinu tefli Eyþóri fram. Sægreifarnir vilja ekki bara ráða á landsbyggðinni. Þeir vilja einnig teygja sig til höfuðborgarinnar. Það mun ekki heppnast að þessu sinni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, er yfirburðarmaður í stjórnmálum borgarinnar. Hann er líklegur til að ná 30% kjörfylgi að nýju og halda embætti borgarstjóra, studdur af Samfylkingu, Viðreisn og einum flokki í viðbót.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti dottið niður í 20% fylgi og líklegt er að Framsókn komi engum manni að í borginni en forysta flokksins í borginni er algerlega týnd. Forystumenn bæði VG og Pírata eru hættir og fróðlegt verður að sjá hvernig flokkarnir leysa forystumál sín fyrir kosningar.

Þá á eftir að koma í ljós hvort Óttar Proppé muni leiða lista Bjartrar framtíðar í borginni. Þó illa hafi farið fyrir BF, er talið að Óttar njóti vissrar samúðar og velvilja meðal kjósenda.

Rtá.