Partýið var byrjað að súrna

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona er gestur Mannamáls í kvöld:

Partýið var byrjað að súrna

Partýið var byrjað að súrna. Ég var farin að hræðast sjálfa mig á sviðinu. Mér leið eins og áhorfandanum úti í sal sem var að upplifa vondan leik. Og svo kæfði ég bara þessa kvíðahugsun með vissunni um að ég gæti farið á barinn eftir leiksýningu og fengið mér nóg af bjór.

Svona lýsir leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir aðdragandanum að því að hún setti tappann í flöskuna og hætti að drekka fyrir níu árum, en hún kveðst hafa verið sullandi meira og minna allt frá menntaskólaárunum í Hamrahlíð - og partýið hafi bara verið búið, samkvæmisljónið að linast. Og hún þakkar sínum sæla fyrir að vera búin að öðlast meðvitund á ný, kraftinn sem fylgir því að vera til staðar öllum stundum, hún eigi svo miklu meira af sjálfri sér en áður.

Hún talar um hlutverk sitt í Ófærð sem öll þjóðin virðist vera að horfa á í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldum - og hún talar almennt um leiklistina í lífi sínu, hversu miklilvægt það sé að fara óþvinguð inn í hlutverkin fremur en að rembast í rullunni - og hún rifjar líka upp pólitíkina á árum áður þegar hún fékk rödd og power eins og hún orðar það, sællar minningar - og útilokar ekki að skella sér aftur í stjórnmálin.

Hún er einlæg og persónuleg í spjallinu, eins og hún á að sér, en Mannamál fer í loftið klukkan 20:00 í kvöld.   

Nýjast