Óttast frekari áföll

Óttast frekari áföll

Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir það ljóst að loðnan komi ekki og að enn séu blikur á lofti um hvort frekari áföll muni dynja á. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að aflaheimildir fyrir loðnu verði ekki gefnar út að sinni þar sem hún hefur ekki fundist þrátt fyrir leit í yfir 100 daga. Fréttablaðið greinir frá.

„Við vitum ekki hvort verkföll skelli á og óvissa ríkir um kolmunnaveiðarnar og hvort hlutdeild okkar í þeim minnki, en það á enn eftir að semja um þær við Færeyinga,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við Fréttablaðið.

Eins og þegar hefur verið greint frá hefur 15 manns verið sagt upp í Fjarðabyggð vegna loðnubrestsins og sveitarfélagið sér fram á að laun starfsmanna í sjávarútvegi muni lækka um 13 prósent og að launatekjur íbúa í sveitarfélaginu muni lækka um fimm prósent, eða því sem nemur rúmum milljarði króna.

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður Afls starfsgreinafélags Austurlands, segir áhrifin mikil á samfélögin í samtali við Fréttablaðið. „Bæði fyrir þá sem vinna við veiðarnar og vinnsluna og svo bara á allt samfélagið þar sem þessi vinnsla hefur farið fram.“

Hún segir fjárhagsskaðann mikinn fyrir hafnirnar og að hann smiti frá sér út í samfélagið. Loðnuvertíðin skapi mörg hundruð manns atvinnu. „Ég myndi skjóta á að þetta væru ekki færri en 500 manns í landvinnslunni og svo sjómenn á um það bil tíu skipum. Þetta er mjög mikið áfall fyrir svæðið allt,“ segir Hjördís Þóra. 

Nýjast