Óttaðist að hitta brjálaðan mann í herberginu

 

„Það var mjög sérkennilegt. Þér er sýnt þetta herbergi og þú leggst upp í rúmið. Það er svona skilrúm á milli okkar og ég hugsaði einmitt þetta: „Hvaða brjálæðingur er þarna?“ Þarna segir það mér strax hversu mikla fordóma ég var með gagnvart þessu,“ segir Friðþór Vestmann Ingason um þegar hann var lagður inn á geðdeild og óttaðist að þurfa að deila herbergi með brjáluðum manni.

Friðþór gaf út bókina Lærdómsvegurinn á síðasta ári, þar sem hann rekur baráttu sína við geðsjúkdóm sinn, geðhvarfasýki 2, á hispurslausan máta. Bókina skrifaði hann í rauntíma eftir að hann var lagður inn. Friðþór er gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hann ræðir þessa baráttu nánar.

Friðþór segist telja að hann sé ennþá haldinn fordómum að einhverju marki þrátt fyrir að vera sjálfur með þennan sjúkdóm, sem hann sé þó ekki veikur af í dag. „Það er þetta að maður heldur alltaf að allir séu brjálaðir, kannski vegna þess að margir og margar fréttir sýna þessa dökku mynd. En hún er köflótt.“

Þegar verst lét var Friðþór byrjaður að skipuleggja sjálfsvíg, slíkt var svartnætti depurðarinnar sem var alltumlykjandi. Það fór þó svo að ljósið hafði betur, sem er ekki sjálfgefið. Ástæðuna fyrir því segir Friðþór vera þá að kerfið hafi tekið afskaplega vel utan um sig strax í byrjun, þegar hann lagðist inn á  geðdeild. „Þar fæ ég strax góðan lækni, góðan hjúkrunarfræðing, ég fæ góðan sálfræðing. Félagsráðgjafi kemur þarna inn í.“ Auk þess hafi hans nánasta fólk staðið með honum allan tímann. „Eins og ég segi í bókinni: „Þetta eru hetjur að lifa þetta af.““

Nánar er rætt við Friðþór í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.