Ótrúleg atburðarás í breiðholti: svona tókst þéttvaxna lögregluþjóninum að handtaka hlaupagikkinn – vitið vinnur meira en krafturinn

„Það var einu sinni á vormánuðum einhvern tímann á síðustu öld að þrír vaskir lögreglumenn voru við eftirlitsstörf í Breiðholti að kvöldlagi. Allt var með kyrrum kjörum í hverfinu þegar skyndilega var tilkynnt í talstöðinni að ölvaður ökumaður væri á ferð í borginni og nálgaðist Breiðholt óðfluga.“ Þannig hefst óborganleg frásögn sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti fyrr í dag á samskiptamiðlum. Við gefum lögreglunni orðið:

„Þremenningarnir brugðust skjótt við og sáu fljótlega bílinn sem lýst var eftir. Eftir stutta en snarpa eftirför stöðvaði ölvaði ökumaðurinn bíl sinn neðarlega í Seljahverfi. Maðurinn vissi greinilega upp á sig sökina og taldi réttast að forða sér af vettvangi. Hann tók því á rás og hljóp upp Breiðholtsbrautina með tvo lögreglumenn á hælunum.

Þriðji lögreglumaðurinn varð eftir í lögreglubílnum sem hafði staðnæmst við bíl ölvaða mannsins en í honum voru tveir farþegar. Vissara þótti að hafa á þeim gætur enda voru þeir í lítt betra ástandi en ökumaðurinn og allt eins líklegir til að halda akstrinum áfram.

Af ölvaða ökumanninum er það að segja að hann var frár á fæti og dró nokkuð í sundur með honum og laganna vörðum. Annar lögreglumannanna var reyndar ekkert sérstaklega hlaupalega vaxinn og dróst fljótt aftur úr. Hinn lögreglumaðurinn var hins vegar nokkuð sprettharður og ætlaði ekki að játa sig sigraðan.

Þegar hann hafði hlaupið drjúgan spöl á eftir manninum og var kominn yfir Breiðholtsbrautina og að bensínstöðinni á mótum Norðurfells og Suðurfells leit út fyrir sem snöggvast að ölvaði ökumaðurinn hefði gengið honum úr greipum. Svo reyndist þó alls ekki vera því kauði sást á bensínstöðinni þegar betur var að gáð og bar sig mjög aumlega. Búið var að handtaka hann og yfir honum stóð lögreglumaðurinn sem hafði líka hlaupið af stað í upphafi en ekki haft úthald til að komast á leiðarenda.

Sá ágæti maður, sem síðar sneri sér að öðrum og hættuminni störfum, virðist hafa verið úrræðagóður með afbrigðum. Sprettharði lögreglumaðurinn undraðist samt að félagi hans hafði orðið fyrri til að handtaka ölvaða ökumanninn.

Eins og annað í lífinu átti þetta sér eðlilegar skýringar. Þéttvaxni lögreglumaðurinn hafði sannarlega gert sitt besta til að hlaupa þrjótinn uppi en séð fljótt að það hefði aldrei tekist. Hann greip því til þess ráðs að veifa leigubíl sem átti leið um Breiðholtsbrautina og lét keyra sig á fyrrnefnda bensínstöð.

Þar beið kappinn síðan rólegur eftir ölvaða ökumanninum og handsamaði hann fyrirhafnarlaust enda var fulli hlaupagikkurinn orðinn örmagna af þreytu. Þessi saga sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að lögreglumenn deyja sjaldnast ráðalausir og virðast ávallt eiga ráð undir rifi hverju. Þetta sýnir líka að oft vinnur vitið meira en krafturinn. Góða helgi öllsömul.“