Össur vill að hin 93 ára gamla ída fái aftur að verða íslendingur

„Áðan var frábær þáttur á RÚV um Ídu, 93 ára íslenska konu sem hefur búið mestallt sitt líf í Bandaríkjunum. Hún giftist amerískum hermanni sem hingað kom í síðari heimsstyrjöldinni. Ída tók “leap of faith” og tók bónorði hermannsins eftir að hafa þekkt hann í 48 tíma.“

Þetta segir Össur Skarphéðinsson um þátt sem fjallar um Ídu Jónasdóttur og sýndur var á RÚV. Ieda ólst upp í Reykjavík og á Vopnafirði. Hún flutti til Bandaríkjanna eftir að hafa kynnst bandarískum hermanni á stríðsárunum. Hann hét Delbert Herman enn á Íslandi var hann einfaldlega kallaður Hermann. Össur segir:

„Í kjölfarið lifðu þau í hamingjusömu hjónabandi í Ameríku í 70 ár. Gifting þeirra í Dómkirkjunni – þar sem hún var líka skírð og fermd – braut í blað. Það var í fyrsta sinn sem íslensk kona og bandarískur hermaður giftust hér á landi.“

Ída ól börn sín upp á sögum um Ísland.

„Hún heldur tengslum við Ísland, rekur ættir sínar til 860, talar íslensku, ræktar fjölskyldu sína á Íslandi – og 93 ára gömul upplifir hún íslenska náttúru með því að fljúga svifdrekum yfir landið! – Eitt angrar hana þó eftir langa ævi. Hún varð á sínum tíma að afsala sér íslenska ríkisborgararéttinum til að öðlast þann bandaríska. Nú á hún þá ósk heitasta að deyja sem Íslendingur,“ segir Össur og bendir á að Ída fær það ekki nema að hafa búið hér á landi í 9 mánuði.

„Svo Ída ætlar að flytjast til Íslands og búa eins lengi og þarf til að geta dáið einsog hún fæddist – sem íslenskur borgari. Einsog eðlilegt er þegar maður er 93 ára er hún ekki endilega viss um að henni auðnist líf og aldur til að ná þeim síðasta punkti langrar lífshamingju,“ segir Össur og vill að Alþingi grípi í taumana.

„Mér finnst að Alþingi eigi að hjálpa henni til þess með því að taka hana vafningalaust inn í þann hóp sem á hverju vori er skutlað í raðir löggiltra Íslendinga. Ef einhver á það skilið að reglur kansellísins séu beygðar án þess að brotna er það hinn rammíslenska 93 ára gamla Ída.“