Óskar í flokknum frá 6 ára aldri: sjálfstæðismenn í sárum - „þeim er ekki viðbjargandi blessuðum forystumönnunum“

Vísir hefur kortlagt ólguna og átökin innan Sjálfstæðisflokksins svo eftir hefur verið tekið. Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi skrifaði ítarlega fréttaskýringu um flokkinn í júní þar sem varpað var ljósi á flokk sem virðist vera að liðast í sundur. Greiningin heldur áfram og ræddi Jakob við Óskar Magnússon rithöfund og athafnarmann sem viðstaddur var mikinn hitafund á Hellu síðasta föstudag en þar var orkupakkinn til umræðu.

Óskar Magnússon hefur verið í Sjálfstæðisflokknum frá því að hann var sex ára. Segir Óskar að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ásamt þingmönnunum Birgi Ármannssyni og Ásmundi Friðrikssyni hafi setið fundinn. Óskar Magnússon segir í samtali við Vísi að honum hafi blöskrað og gagnrýnir forystuna hvernig hún heldur á málum. Þá kvartar Óskar undan því að ekki votti fyrir einu né neinu sem túlka megi sem vísi að sáttarhönd í þessu máli.  Þá segir að Óskar hafi hæðst að þeirri ákvörðun að greiða Dr. Carl Baudenbacher 8,4 milljónir króna fyrir ráðgjöf í tengslum við Orkupakkann. Óskar segir:

„Guðlaugur Þór segist hafa eytt þessu í þennan fína, gráhærða og feita karl sem birtist með stærsta vasaklút sem sést hefur í nokkrum jakkafatavasa [...] Hvað er að marka álit utan úr heimi sem borgaðar eru aðrar eins upphæðir fyrir?“

Þá segir Óskar einnig:  „Þetta sem góðir og gegnir Sjálfstæðismenn sem eru í sárum yfir þessu. En, þeim er ekki viðbjargandi blessuðum forystumönnunum.“ Á öðrum stað segir Óskar að hann ætli sér ekki að segja sig úr flokknum. Óskar segir:

„Ég hef sagt frá því að að ég byrjaði sex ára í flokknum og var þá að ydda blýanta á flokksskrifstofunni. En, það er ekki víst að það verði gaman í flokknum.“

Hér má lesa fyrri greiningu Vísis á vandræðum Sjálfstæðisflokksins og hér þá síðari.