Ósáttur við villandi auglýsingu: „Hefur ekki boðið lægsta verð á Íslandi í að ég held níu ár”

Ósáttur við villandi auglýsingu: „Hefur ekki boðið lægsta verð á Íslandi í að ég held níu ár”

Jón Páll Leifsson, framkvæmdastjóri Dælunnar, er ósáttur við auglýsingu Atlantsolíu sem birtist á netinu, þar sem fullyrt var að lægsta eldsneytisverð landsins í Kaplakrika og á Sprengisandi væri að finna hjá Atlantsolíu. Auglýsingin hefur nú verið tekin úr birtingu og ný auglýsing er komin í staðinn.

„Ég heyrði þessa auglýsingu fyrst á mánudag fyrir viku síðan [3. júní síðastliðinn] og svo héldu þeir áfram að birta hana og það þrátt fyrir að vera með fjórða lægsta verðið á tímabili,“ segir Jón Páll í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann segist hafa leitað til Neytendastofu vegna auglýsingarinnar og skömmu síðar var hún farin úr birtingu.

Í auglýsingunni var fullyrt: „Lægsta eldsneytisverð landsins í Kaplakrika og á Sprengisandi.“ Jón Páll segir þessa fullyrðingu í auglýsingunni vera mjög villandi fyrir neytendur. „Atlantsolía hefur ekki boðið lægsta verð á Íslandi í að ég held níu ár,“ segir hann.

Í auglýsingunni sem kom í staðinn segir: „Lægsta verðið er hjá Atlantsolíu Kaplakrika og Sprengisandi,“ sem vísar til þess að lægsta verð Atlantsolíu er að finna á þessum tveimur bensínstöðvum fyrirtækisins. Einhverjir kunna þó eflaust enn að túlka orðalagið á þann veg að lægsta eldsneytisverð landsins sé að finna hjá Atlantsolíu, sem er ekki raunin.

Verðstríð skollið á

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að sama dag og Jón Páll segist hafa orðið var við auglýsinguna hafi mbl.is greint frá því að verðstríð vegna bensíns væri skollið á á höfuðborgarsvæðinu. Þá lækkaði Atlantsolía eldsneytisverð sitt á Sprengisandi til samræmis við verðið við Kaplakrika, þar sem lægsta verð fyrirtækisins hefur löngum verið að finna. Í kjölfarið hafi verð lækkað á bensínstöðvum annarra fyrirtækja.

Nýjast