Ósáttir við kaldar kveðjur frá así

Það eru skrýtin skilaboð frá félagi í eigu ASÍ að útiloka fyrirfram innlenda framleiðendur frá þátttöku í að smíða innréttingar fyrir Bjarg íbúðafélag. Þetta er mat stjórnar Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda. Bjarg hefur áður þurft að svara gagnrýni fyrir að flytja inn einingahús frá Lettlandi í stað þess að notast við innlenda framleiðslu og verkafólk.

Bjarg, sem er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var af ASÍ og BSRB, gerði í byrjun nóvember samkomulag við IKEA um samstarf vegna íbúða Bjargs. Í samkomulaginu felst að Bjarg mun „leitast við að nota innréttingar IKEA í íbúðir félagsins. IKEA mun taka þátt í hönnunarferli íbúða og útfæra innréttingarnar með það að markmiði að ná fram hámarksnýtingu rýma,“ eins og segir í tilkynningu Bjargs. Félagið er með 223 íbúðir í byggingu í Reykjavík og á Akranesi og mörg hundruð íbúðir í undirbúningi víðar.


Innlendir framleiðendur líta hins vegar svo á að í þessu samkomulagi felist ákveðið vantraust á þá, auk þess sem verið sé að flytja út vinnu að óþörfu.