Ósætti um ákvæði nýrra umferðarlaga: hreyfihamlaðir mega aka í göngugötum

Í byrjun næsta árs taka ný umferðarlög gildi. Í þeim er kveðið á um að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða (P-korta) sé heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á göngugötum og leggja þar í sérstök stæði. Skiptar skoðanir eru um ágæti þessa ákvæðis.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar, að það muni breyta ásýnd göngugatna ef fólk þurfi að hafa varann á sér vegna bílaumferðar og nefnir þar sérstaklega til sögunnar fólk með börn. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur einmitt í hyggju að bera meirihluta Laugavegs að varanlegri göngugötu og mun ákvæðið þá ná yfir hana.

Haft er eftir Pawel að hann telji betri framtíðarlausn að búa til fallega og mannvæna miðborg í stað þess að horfa alltaf til þess að bíllinn sé leið fólks til að komast sem næst verslunum og fyrirtækjum.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, er á öndverðum meiði við Pawel. Hún lagði síðasta haust fram tillögu í borgarstjórn um sambærilegt fyrirkomulag en hún fékk óblíðar viðtökur hefur Morgunblaðið eftir Kolbrúnu.

„Þegar þetta er orðið að lögum efast ég um að þau geti komist hjá þessu. Borgin verður að virða lögin,“ segir Kolbrún