Ósætti ef afi og amma neita að passa

Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf segir oft undirliggjandi ástæður fyrir ósætti  milli foreldra og uppkominna barna þeirra.

Kannanir sýna að afar og ömmur gera heilmikið af því að hjálpa uppkomnum börnum sínum með barnabörnin, þó þær sýni líka að ákveðinn hópur taki ekki þátt í að gæta barnabarnanna.  Stundum verður ósætti í fjölskyldum vegna þessa. Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands segir að verði þetta mikið mál, sé oftast eitthvað sem liggi undir. Þegar foreldrarnir upplifi það sem höfnun ef afi og amma geti ekki passað, eigi það rætur í tengslunum lengra aftur.  En það sé svo gott að það sé alltaf hægt að laga það, ef slíkir hnútar komi upp.  Sigrún ræðir um hvernig hægt er að leysa þetta  í viðtali við Jóhönnu Margréti Einarsdóttur í þættinum Fimmtíu plús, sem verður á dagskrá Sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar í kvöld, mánudagskvöld, klukkan 20:30.

Finnst lífið hafa byrjað í dag

Sigrún er einnig spurð í þættinum um gildi þess fyrir börn að hafa samskipti við afa sína og ömmur. „Það hefur mikið gildi“, segir hún. „Þó við tölum um margbreytileika og að margt sé öðruvísi en áður, er eitt sem hefur ekki breyst, en það er gildi tengsla“.   Hún segir það hafa mikið gildi fyrir börn að hafa tengsl við uppruna sinn og eldri kynslóðina, og kynnast þeirra lífi eins og það var „Ég sé það oft í dag, í öllum hraðanum, að það skortir söguvitund hjá unga fólkinu. Yngstu kynslóðinni finnst lífið hafa byrjað í dag eða um  það bil á morgun, en það er ekkert í gær. Við gleymum þeirri reynslu sem kynslóðirnar búa yfir, en það hefur gildi að vita um það“.

Í þættinum á Hringbraut verður einnig rætt um frítekjumark eldri borgara, sem lækkaði um áramótin úr rúmlega 100 þúsund krónum á mánuði í 25.000 krónur. En frítekjumarkið er sú upphæð sem þeir sem fá eftirlaun frá Tryggingastofnun ríkisins geta haft, án þess að það lækki greiðslur til þeirra frá TR.